NASA og SpaceX ætla að senda tvo geimfara, þá Robert Behnken og Douglas Hurley, til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar á miðvikudaginn 27. maí. Það væri ekki í frásögur færandi nema vegna þess að Bandaríkjamenn standa fyrir flugskotinu.

Þetta verður fyrsta mannaða geimferð SpaceX og fyrsta mannaða geimskotið í Bandaríkjunum frá árinu 2011. Behnken og Hurley eru báðir reyndir geimfarar og tóku báðir þátt í Geimskutluáætluninni en Hurley var meðal geimfaranna sem flugu í síðasta leiðangri áætlunarinnar.

Rússar hafa staðið fyrir flestum mönnuðum geims­kotum síðastliðinn áratug en nú ætla Banda­ríkja­menn að koma sterkir inn í seinni geimöldina.

Behnken og Hurley tóku báðir þátt í Geimskutluáætluninni sem lauk árið 2011.
Fréttablaðið/Getty images

NASA og SpaceX hafa unnið saman á þessu ári við Crew Dragon Demo-2 á­ætlunina. Falcon 9 eldflaugin fræga mun skjóta Crew Dragon geimfarinu á loft upp og mun flaugin lenda aftur á prammanum sem ber nafnið Of course I still love you, sem flýtur í Atlantshafinu.

Áform Bandaríkjamanna næstu ár eru heldur betur metnaðarfull; Stefnt er á mannaðar geimferðir til tunglsins og þaðan til Mars. Hægt er að lesa nánar um það í fréttaskýringu Fréttablaðsins um seinni geimöldina.