Fyrsti hvalurinn hefur verið veiddur í ár.

Hvalvertíðin er hafin að nýju eftir fjögurra ára hlé og Hvalur hf. hefur þegar nýtt veiði- og vinnsluleyfi sitt. Hvalur 9 veiddi fyrstu langreyðina í ár.

Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf, sagði í samtali við Vísi fyrr í vikunni að fyrsti hvalurinn yrði kominn á land fyrir helgi. Spá hans hefur ræst og verka nú menn langreyðina í Hvalstöðinni í Hvalfirði.

Félagið er með leyfi til að veiða allt að 193 langreyðar en forstjórinn efast um að þeim takist að veiða allan kvótann.

Hvalur 9 veiddi fyrsti hval vertíðarinnar.
Mynd: Arne Feuerhahn / Hard To Port

Hvalveiðar eru umdeildar en dýravelferðasamtökin Hard to port, sem berjast fyrir því að banna hvalveiðar við Íslandsstrendur, gagnrýna veiðina harðlega í tilkynningu til fjölmiðla.

„Þetta er mikill sorgardagur fyrir hvali og baráttuna til að vernda hafið,“ segir Arna Feurhahn hjá Hard to Port sem fylgdist með Hvali 9 sigla í höfn með fyrstu langreyði vertíðarinnar. Félagið bendir á að samkvæmt rannsókn sem Fiskistofa birti árið 2015 geti þeir hvalir, sem drepast ekki strax við veiðar, þjást í allt að 15 mínútur áður en þeir loks drepast.

„Flestir á Íslandi vita að hvalir eru veiddir, en þeir vita ekki hvernig þeir eru veiddir. Það er nauðsynlegt að efla eftirlit með þessum iðnaði, skjalfesta allt og veita almenningi upplýsingar um þessar veiðar. Það getur verið erfitt að horfa á myndbönd af hvalveiðum, en það er nauðsynlegt fyrir umræðuna um framtíð hvalveiða.“

Skutlar um borð í skipi Hvals.
Mynd: Arne Feuerhahn / Hard To Port
Við Hvalstöðina í Hvalfirði í morgun.
Mynd: Arne Feuerhahn / Hard To Port

Nærri tveir þriðju aðspurðra, 64,3 prósent, telja hvalveiðar skaða orðspor Íslands samkvæmt nýlegri könnun sem Maskína gerði fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands. 29,6 prósent telja að þær hafi ekki áhrif og 6,1 prósent að þær hafi góð áhrif.