Elisabeth Borne var í dag skipuð í embætti forsætisráðherra af Emmanuel Macron Frakklandsforseta.

Hún er fyrsta konan til að leiða franska ríkisstjórn í áratugi en aðeins ein önnur kona, Edith Cresson, hefur gegnt embættinu fyrir þremur áratugum á árunum 1991 til 1992.

Borne er 61 árs verkfræðingur sem gegndi áður embætti vinnumálaráðherra en hún á langan feril í stjórnmálum.

„Ég tileinka þessa tilnefningu öllum litlu stúlkunum í Frakklandi, til að segja þeim að elta drauma sína,“ sagði Borne þegar hún tók við embættinu í dag og bætti við að ekkert ætti að stöðva baráttu kvenna í samfélaginu til að fá pláss.

Borne er jafnframt þriðji forsætisráðherra Macrons en fyrsti sem telst vinstra megin við miðju.