Lisa Mont­gomery, sem dæmd var til dauða fyrir mann­rán og morð, var tekin af lífi í Banda­ríkjunum í dag. Hún var fyrsta konan í tæp 70 ár sem tekin var af lífi af al­ríkis­stjórninni. Hæsti­réttur hafnaði þremur beiðnum verj­enda hennar um að falla frá af­tökunni.

Hin 52 ára gamla Lisa Mont­gomery var dæmd árið 2007 fyrir morðið á hinni 23 ára gömlu Bobbie Jo Stinnett, sem var þá með barni. Mont­gomery skar barnið úr móður­kviði og lét sem það væri hennar. Hún var hand­tekinn daginn eftir og barninu, sem lifði ó­dæðið af, var komið til föður síns. Kvið­dómur dæmdi hana til dauða og var þeim úr­skurði fram­fylgd í Ter­re Haute í Indiana-ríki klukkan 1:13 í nótt að staðar­tíma.

Montgomery er hún var handtekin árið 2004.
Fréttablaðið/EPA

Verj­endur Mont­gomery fóru þess á leit við Hæsta­rétt Banda­ríkjanna að af­tökunni yrði frestað eða hún dæmd til lífs­tíðar­fangelsis­vistar í stað dauða, þar sem hún hafi mátt sæta of­beldi frá blautu barns­beini og meðal annars glímt við lang­vinnan heila­kvilla vegna þessa. Áður hafði af­tökunni verið frestað nokkrum sinnum af dómurum á lægra dóm­stigi en fór svo að Mont­gomery var tekin af lífi með ban­vænni sprautu. Þetta er ellefta af­takan sem ríkis­stjórn Trump hefur fram­kvæmt síðan al­ríkis­stjórnin á­kvað að hefja dauða­refsingar á ný í júlí eftir 17 ára hlé.

Ég tel að hún hafi ekki haft neinn vit­rænan skilning á því sem fram fór.

Kell­ey Henry, einn verjanda Mont­gomery, sagði við AP í gær að skjól­stæðingur sinn hefði verið færð til al­ríkis­fangelsins í Ter­re Haute seint á mánu­dags­kvöld frá fangelsi í Texas. Þar sem engin að­staða hafi verið fyrir hendi í Ter­re Haute fyrir kven­fanga var hún vistuð í klefa inni í rýminu þar sem af­takan fór fram. „Ég tel að hún hafi ekki haft neinn vit­rænan skilning á því sem fram fór,“ sagði Henry um and­legt á­stand Mont­gomery.

Er hún var innt eftir því hvort hún hefði ein­hver loka­orð áður en hún var tekin af lífi svaraði hún því neitandi að sögn blaða­manns sem var við­staddur af­tökuna. Verj­endur hennar vildu meina að hún upp­fyllti ekki kröfur Hæsta­réttar Banda­ríkjanna um and­legt hæfi þeirra sem teknir eru af lífi. Á þetta hafði á­frýjunar­dóm­stóll í Indiana-ríki fallist og frestað af­tökunni af þeim sökum en hæsti­réttur hafnaði þessari rök­semda­færslu í gær.

Mótmælendur fyrir utan alríkisfangelsið í Terre Haute.

Við á­frýjun lögðu verj­endur Mont­gomery fram gögn, meðal annars úr segulóm­skoðunum, sem sýndu fram á að hún hefði orðið fyrir heila­skaða í æsku og sögðu það sanna að hún hafi ekki verið með fullu viti þegar hún framdi ó­dæðið. Einnig gerðu þeir grein fyrir erfiðu lífi hennar sem ein­kenndist af grófu of­beldi, kyn­ferðis­legu og líkam­legu, nánast frá fæðingu. Hún var fórnar­lamb „kyn­ferðis­legra pyntinga“ að þeirra sögn, þar á meðal hóp­nauðgana sem barn.

Þetta hafi markað djúp spor, bæði til­finninga­lega og líkam­lega og ýtt undir and­leg vanda­mál sem hafi legið í fjöl­skyldu hennar. Þessu höfnuðu sak­sóknarar ein­dregið og töldu að morðið á Stinnett hafi verið út­hugsað. Meðal annars hafi Mont­gomery kannað hvernig fram­kvæma ætti keisara­skurð áður en hún skar átta mánaða gamalt barnið úr móður­kviði.