Á morgun verður liðið ár frá því að fyrsta til­felli CO­VID-19 greindist hér á landi. Þann 28. febrúar greindist ís­lenskur maður með sjúk­dóminn eftir að hafa verið í ferða­lagi á Norður-Ítalíu. Þau til­felli sem greindust dagana á eftir mátti öll rekja til Norður-Ítalíu og Austur­ríkis en þann 6. mars greindist hér fyrst innan­lands­smit.

Í kjöl­far þess lýsti ríkis­lög­reglu­stjóri yfir neyðar­stigi al­manna­varna í sam­ráði við sótt­varna­lækni og þann sama dag var sett á heim­sóknar­bann á hjúkrunar­heimilum og á Land­spítala.

Fyrsta bylgja far­aldursins náði há­marki um 22. mars en þann dag voru stað­fest til­felli 568 talsins og tæp­lega sjö þúsund manns voru í sótt­kví. Ís­lensk erfða­greining hóf að skima fyrir CO­VID-19 þann 13. mars og þann 24. mars greindust 106 með smit á einum sólar­hring.

Hinn 16. mars var sett á sam­komu­bann og máttu ekki fleiri en 100 koma saman, og viku síðar voru sam­komu­tak­markanir hertar og mörkin sett við tuttugu manns. Tak­markanirnar giltu til 4. maí en þá máttu fimm­tíu manns koma saman. Tveimur vikum síðar voru sund­staðir opnaðir og því næst líkams­ræktar­stöðvar, þá fengu 200 manns að koma saman og lífið færðist í eðli­legra horf.

Önnur bylgja

Fyrsta innan­lands­smit í annarri bylgju far­aldursins greindist 23. júlí en þá hafði ekki greinst smit hér á landi í þrjár vikur. Átta dögum síðar voru inn­leiddar sam­komu­tak­markanir sem miðuðu við að ekki kæmu saman fleiri en 100 manns. At­burðum sem fram áttu að fara um verslunar­manna­helgi var af­lýst og það sama á við um Menningar­nótt í Reykja­vík.

Kúrfan reis hratt í annarri bylgjunni og þann 31. júlí voru fimm­tíu manns með stað­fest smit. Dögum saman greindust þó fá til­felli og stóð önnur bylgjan lengi yfir, eða fram í byrjun septem­ber.

Þriðja bylgja

Þriðja bylgja kóróna­veirufar­aldursins hófst að mati vísinda­fólks við Há­skóla Ís­lands 11. septem­ber og í kjöl­farið voru sam­komu­tak­markanir hertar enn á ný. Þá var lýst yfir neyðar­stigi al­manna­varna á höfuð­borgar­svæðinu og sam­komur voru miðaðar við tíu manns. Settar voru reglur um grímu­skyldu og börum og krám var gert að loka.

Þriðja bylgjan náði há­marki í októ­ber og þann 5. þess mánaðar greindust 99 með veiruna hér á landi. Þann dag lágu fimm­tán á sjúkra­húsi með CO­VID-19 og þrír voru á gjör­gæslu.

Í lok októ­ber greindist smit á Landa­koti og mátti svo rekja þangað alls 117 til­felli. Alls smituðust 60 skjól­stæðingar Landa­kots, Reykja­lundar og Sól­valla á Eyrar­bakka og 57 starfs­menn.

Fjór­tán ein­staklingar létust á Land­spítala í kjöl­far hóp­smitsins á Landa­koti og tveir létust á hjúkrunar­heimilinu Bergi í Bolungar­vík. Þá má einnig rekja and­lát þriggja ein­stak­linga á hjúkrunar­heimilinu Sól­völlum á Eyrar­bakka til sömu hóp­sýkingar á­samt and­láti ein­stak­lings sem lést á Land­spítala eftir smit á hjúkrunar­heimilinu Ísa­fold í Garða­bæ. Alls hafa 29 látist í far­aldrinum hér á landi.

Bólu­setning hófst á Ís­landi þann 29. desember þegar fjórir heil­brigðis­starfs­menn voru bólu­settir. Síðan þá hafa yfir tólf þúsund Ís­lendingar lokið bólu­setningu, eða rúm þrjú prósent þjóðarinnar.

Til stendur að búið verði að bólu­setja 190 þúsund manns hér­lendis fyrir júní­lok en öllum eldri en fimm­tán ára verður boðin bólu­setning á ein­hverjum tíma­punkti.

Nú þegar ár er frá því að smit var fyrst greint hér á landi eru Ís­lendingar enn staddir í þriðju bylgjunni sem þó virðist vera að dvína. Yfir 6.000 til­felli hafa nú verið stað­fest hér, tæp­lega 280 þúsund sýni hafa verið tekin og fleiri en þrjú hundruð hafa verið lögð inn á sjúkra­hús. Næstum 46 þúsund manns hafa lokið sótt­kví.

Enn eru í gildi tak­markanir á sam­komum og mega fimm­tíu manns koma saman. And­lits­grímur skal nota í al­mennings­sam­göngum, í verslunum og annarri þjónustu.

Þá skal einnig nota and­lits­grímur þar sem ekki er unnt að tryggja tveggja metra ná­lægðar­tak­markanir sem eru í gildi. Nánari upp­lýsingar um gildandi sam­komu­tak­markanir má finna á heima­síðunni co­vid.is.