Inga Birna Ár­sæls­dóttir varð í vikunni fyrsta konan á Ís­landi til að hljóta svart belti í brasilísku Jiu-Jitsu (BJJ). Eftir níu ár nám undir MMA kappanum Gunnari Nel­son fékk Inga beltið loks um mittið síðast­liðinn fimmtu­dag.

Blóð, sviti og tár

„Þetta var alveg ó­lýsan­leg til­finning,“ segir Inga í sam­tali við Frétta­blaðið. „Ég fór auð­vitað að gráta þegar ég tók við beltinu og þetta var alveg mögnuð stund í faðmi vina sem hafa gengið í gegnum þetta með manni.“

Þegar Ingu varð litið á búninginn, sem hún hafði svitnað í, varð henni litið á blóð­blett. „Það lýsti þessu bara svo vel, blóð, sviti og tár, allt á sama augna­bliki.“

Hreyfing sem fer vaxandi

Hún segir það mikinn heiður fylgja því að vera fyrsta ís­lenska konan með svart belti í í­þróttinni. „Það er eitt­hvað rosamikið stolt sem fylgir því, bæði stolt af sjálfri mér og þakk­læti fyrir alla í kringum mig.“

Á Ís­landi eru 19 karlar með svart belti í BJJ en Inga segir að í­þróttin sé í stöðugum vexti. „Þetta sport er náttúru­lega svo­lítið ungt í heiminum og þetta er svo­lítið karl­lægt sport upp að því marki að það eru mun fleiri karlar í því en konur.“

Það sé þó að breytast og fer í­þróttin stöðugt vaxandi bæði á Ís­landi og í heiminum að sögn Ingu. Sí­fellt fleiri konur bætist því í hóp þeirra sem hafa náð æðsta á­fanga í­þróttarinnar. „Það er svo dá­sam­legt að sjá þetta sport vaxa og dafna.“

Inga Birna ásamt félögum sínum í Mjölni.
Mynd/Aðsend

Grósku­mikið sam­fé­lag

BJJ er bar­daga­í­þrótt þar sem mest á­hersla er lögð á glímu í gólfinu. Í­þróttin var hönnuð til að gera veik­byggðari ein­stak­lingum kleift að yfir­buga stærri og sterkari and­stæðinga og byggist því að mestu leyti á vogar­afli og tækni um­fram styrk. Að mati Ingu geta því allir skarað fram úr í BJJ.

„Ég fór ein á grunn­nám­skeið fyrir um níu árum á tíma­bili þar sem ég vissi ekki alveg hvað mig langaði að gera en svo þegar ég byrjaði að æfa glímuna þá féll ég alveg fyrir henni.“ Þrátt fyrir að hafa byrjað ein skorti Ingu þó aldrei fé­lags­skap í í­þróttinni og hefur hún kynnst mörgum af sínum bestu vinum á þessum árum.

Stór partur af lífinu

„Þetta hefur verið alveg of­boðs­lega stór partur af mínu lífi síðustu níu árin og hefur breytt mörgu fyrir mér.“ Í dag er Inga virkur með­limur í sam­fé­laginu sem hefur orðið til í kringum í­þróttina og segist enn heillast upp úr skónum af hug­sjónum þess.

Þrátt fyrir að á heima­síðu Mjölnis standi að þau sem hafa svart belti „kunni og viti allt“ er Inga hvergi nærri hætt. „Þetta er bara rétt að byrja og það er alveg nóg eftir þrátt fyrir að þessum stóra á­fanga sé náð,“ segir Inga brosandi. „Nú er bara að halda á­fram.“