Bensínstöð Orkunnar norðan við Miklubraut varð í dag að fyrstu fjölorku-stöð landsins. Ökumenn geta þá keypt nær alla endurnýjanlega orkugjafa sem framleiddur eru í landinu. Metangasið kemur frá urðunarstöð SORPU í Álfsnesi, hraðhleðsla fyrir rafmagns- og tengitvinnbíla frá Orku náttúrunnar og vetni frá Orku náttúrunnar sem framleitt er með rafgreiningu í Hellisheiðarvirkjun.

Verkefnið var styrkt af Evrópusambandinu um tvær milljónir evra. Verkefnisstjórn og þróun hefur verið í höndum Íslenskrar NýOrku en stöðin verður rekin og er í eigu Orkunnar.

„Það eru tímar breytinga í samgöngum sem í felast bæði tækifæri og áskoranir.“

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson flutti ávarp við opnunarathöfn klukkan 12:30 í dag og tók stöðina formlega í notkun með því að fylla á þrjá vistvæna bíla, vetnisbíl, metanbíl og rafbíl, með innlendum endurnýjanlegum orkugjöfum.

„Nú er mikilvægt að fyrirtæki og opinberir aðilar fylgi fordæmi Orkunnar og setji sér markmið að kaupa aðeins bíla sem nota vistvænt eldsneyti þannig að eftirspurn aukist og hægt verði að byggja upp enn frekari innviði,“ segir Jón Björn Skúlason, framkvæmdastjóri Íslenskrar NýOrku.

„Það eru tímar breytinga í samgöngum sem í felast bæði tækifæri og áskoranir,“ segir Hendrik Egholm, forstjóri Skeljungs eiganda Orkunnar.