Fyrsta dauðs­fallið vegna kóróna­veirunnar sem veldur CO­VID-19 sjúk­dómnum hefur verið stað­fest í Bret­landi. Frá þessu er greint á vef BBC.

Um er að ræða konu á átt­ræðis­aldri og sam­kvæmt frétt breska ríkis­út­varpsins hafði hún verið lögð inná sjúkra­hús áður, vegna annarra veikinda. Hún greindist svo með kóróna­vírusinn í gær.

Fjöldi smitaðra í Bret­landi er nú 116 og hefur fjölgað um meira en þrjá­tíu á innan við sólar­hring. Haft er eftir tals­manni Borisar John­son, for­sætis­ráð­herra, að yfir­völd telji nú að veiran muni dreifast enn frekar í landinu.

Sam­kvæmt nýjustu stöðu­skýrslu Al­manna­varnar­deildar Ríkis­lög­reglu­stjóra eru nú 96.888 ein­staklingar með veiruna um heim allan. Þar af hafa 3.305 ein­staklingar látist, sem eru 3,5 prósent. Þá hafa 53.638 ein­staklingar náð sér eftir veikindin.

Áður hefur komið fram að rúm­lega 400manns eru í heima­sótt­kví hér á landi vegna veirunnar. Víðir Reynis­son, yfir­lög­reglu­þjónn, hefur sagt að öll smtin megi rekja til Austur­ríkis og Ítalíu en þaðan hafa stórir hópar verið að koma hingað til lands úr skíða­ferða­lögum undan­farna daga.