Ástralskur maður lést fyrr í vikunni eftir að kengúra réðst á hann. Þetta er fyrsta banvæna kengúruárásin frá árinu 1936, fyrir nær níutíu árum.
Maðurinn, sem var 77 ára, er sagður hafa haldið kengúrunni sem gæludýr, en það er ólöglegt í Ástralíu.
Þegar sjúkraflutningamenn komu á slysstað var kengúran enn í kringum manninn og kom í veg fyrir að sjúkraliðar gætu hlúð að manninum. Kengúran var því skotin svo hægt væri að komast að manninum.
Kengúran sem um ræðir var af tegundinni „Western grey kangaroo“ en þær verða 130 cm háar og geta vegið allt að 54 kíló. Þær geta verið ógnvekjandi þegar þær reiðast og geta kýlt og sparkað af miklum þunga.
„Þetta eru ekki sæt dýr, þetta eru villt dýr,“ sagði fulltrúi dýraverndarsamtaka í samtali við Sky News.