Rótarý-hreyfingin heldur sína fyrstu alþjóðlegu ráðstefnu á Íslandi um helgina. Soffía Gísladóttir, ráðstefnustjóri og fyrrverandi umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi, segir ráðstefnuna vera sögulegan viðburð, bæði vegna þess að hún er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi og vegna þess að Jennifer Jones, heimsforseti alþjóðlegu Rótarýhreyfingarinnar, verður viðstödd.

„Vera Jones hér er kannski það merkilegasta við viðburðinn, því í hundrað ára sögu Rótarý er kona í fyrsta sinn forseti,“ segir Soffía. „Þetta snýst svolítið í kringum hana og hennar áherslur.“

Soffía segir að fólk viti ekki endilega af umfangi mannúðarstarfs Rótarý-hreyfingarinnar. „Fólk veit að Rótarý-fólk hittist á fundum, borðar mat og hlustar á erindi en það vita alls ekki allir hvað Rótarý þýðir í raun og það er boðskapurinn sem við viljum breiða út. Við erum með sjö áherslur innan Rótarý um allan heim og á laugardeginum taka átta klúbbar að sér að búa til verkefni í kringum þessar áherslur. Fólk situr ekki inni á ráðstefnunni allan tímann heldur fer það út og fær að kynnast landi og þjóð og þessum áherslum.“

Áherslurnar sjö eru: Verndum umhverfið, tryggjum frið, berjumst gegn sjúkdómum, tryggjum hreint vatn, björgum mæðrum og börnum þeirra, tryggjum menntun og styðjum við innlent hagkerfi.

Soffía segir að þátttakendur á ráðstefnunni verði um 400 talsins og að séu allir viðburðirnir taldir með verði íslensku þátttakendurnir um hundrað. Í reynd sé dagskráin í kringum ráðstefnuna tvískipt, annars vegar í fræðslu fyrir verðandi umdæmisstjóra í löndum Norður-Evrópu og hins vegar í ráðstefnuna sjálfa, sem byrjar á föstudaginn og stendur fram á sunnudag.