Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir Ísland komið á góðan stað hvað varðar Covid-faraldurinn. Fjöldi fólks sé þó smitaður af inflúensu sem sé sérstaklega skæð í ár.

Ástæðan sé meðal annars sú að ekki hafi komið upp inflúensufaraldur á síðasta ári vegna þeirra samkomutakmarkana og sóttvarnaaðgerða sem þá voru í gangi. Nú fái hún að ganga laus.

„Inflúensan er seinna á ferðinni í ár en vanalega og eins og við bjuggumst við er hún skæð,“ segir Þórólfur. „Og eins og við bjuggumst líka við er mikið af ungu fólki og börnum að smitast,“ bætir hann við.

Þórólfur segir bólusetningu gegn inflúensunni ekki virðast veita mikla vörn gegn því afbrigði flensunnar sem nú sé í gangi, það verði að koma í ljós hversu vel bólusetningin verndi gegn öðrum afbrigðum hennar.

„Þetta er ekki búið, yfirleitt ganga þrjú afbrigði flensunnar yfir og við erum enn þá á því fyrsta. Hvort þau verði fleiri verður að koma í ljós,“ segir Þórólfur.

Spurður að því hvort þeir einstaklingar sem smitist nú af inflúensu séu ólíklegri en aðrir til að smitast af öðru afbrigði hennar segir Þórólfur svo ekki vera. „Maður getur smitast aftur, smit gegn einu afbrigði verndar ekki gegn öðru,“ segir hann.