„Það var okkar mat að það væri ekki rétt að standa allan straum af kostnaðinum. Ríkið er að leggja tölu­verðan kostnað í að geta opnað landið og við á­kveðum að taka mark á þessari hag­fræði­legu greiningu sem við höfum,“ segir Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra í sam­tali við Frétta­blaðið. Sam­tök ferða­þjónustunnar gagn­rýndu í gær á­kvörðun stjórn­valda um að rukka far­þega sem koma til landsins 15 þúsund krónur til að fara í skimun við landa­mærin. Sam­tökin segja gjaldið allt of hátt.

Katrín segir að ríkis­stjórnin hafi sam­þykkt að rukka 15 þúsund krónur fyrir hvert sýni að til­lögu heil­brigðis­ráð­herra. Gjaldið miðast við beinan kostnað ríkisins af verk­efninu, það er kostnað við sýni, greiningu og flutning sýna frá Kefla­vík til Land­spítala. Bráða­birgða­kostnaðar­mat verk­efnisins gerir þó ráð fyrir að hvert sýni kosti um 22.500 krónur ef tekin eru um 500 sýni á dag en fleiri þættir spila inn í það verð.

Á­kvörðun um að rukka fyrir sýna­tökuna var tekin í ljósi hag­fræði­legrar greiningar fjár­mála­- og efnahagsráðu­neytisins á verk­efninu. Þar kom fram að það væri hag­fræði­lega rétt að rukka ferða­mennina fyrir sýna­töku. Bæði var talað um að beinar skatt­tekjur ríkis­sjóðs af hverjum ferða­manni væru á­ætlaðar um 20 til 25 þúsund krónur og einnig var nefnt að með því að rukka fyrir skimun mætti stuðla að því að hingað til lands kæmu frekar efna­meiri ferða­menn.

Treystir matinu

Jóhannes Þór Skúla­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka ferða­þjónustunnar, var harð­orður í gagn­rýni sinni á þetta hag­fræði­lega mat, sem stjórn­völd fóru eftir. Sagði hann það „mesta bull“ sem hann hefði heyrt og sagði það mun betra fyrir ríkis­sjóð, hag­kerfið og ferða­þjónustuna að fá sem flesta túr­ista inn til landsins. Sagði hann þá að gjaldið væri allt of hátt og virkaði sem hindrun fyrir ferða­menn.

Katrín segist frekar ætla að taka mark á hag­fræði­legri greiningu sér­fræðinga. „Ég meina, það er ljóst að það eru miklar hindranir til staðar nú þegar. Það hefur verið skylda að þeir sem komi hingað til landsins fari í tveggja vikna sótt­kví. Við erum að opna landið meira með því að bjóða fólki upp á að fara frekar í skimun við landa­mærin í stað sótt­kvíar en gegn þessu gjaldi,“ segir Katrín.

„Þetta er heil­mikil að­gerð sem við erum að leggja til og er fyrst og fremst hugsuð í sótt­varnaskini,“ út­skýrir hún. „Á meðan staðan á veirunni er eins og hún er í heiminum teljum við þetta nauð­syn­legt. Svo vonum við náttúru­lega bara að sú staða fari að breytast.“