Niðurstaða sveitarstjórnarkosninganna 2022 í Strandabyggð er orðin ljós en tveir listar buðu fram, T-listi Strandabandalagsins og A-listi Almennra borgara . 334 eru á kjörskrá í Strandabyggð og en kjörsökn var mjög góð í sveitarfélaginu eða 83 prósent.

T-listinn hlaut meirihluta atkvæða eða 160 á meðan A-listi hlaut 106 atkvæði.

Þorgeir Pálsson, sem var sagt upp störfum sem sveitarstjóra Strandabyggðar á síðasta ári, er oddviti T-listans en hann segist ótrúlega stoltur af þessum árangri. „ Þetta er risastórt fyrir mig persónulega eftir allt sem á undan er gengið og ég er ótrúlega stoltur.“

„En aðalmálið er að fólkið í Strandabyggð ákvað í dag að það væri kominn tími á breytingar. Það eru risastórt tíðindi í sveitarfélagi sem hefur verið stýrt af sömu öflunum um langa hríð. Við í T-listanum boðuðum breytingar og fólkið í Strandabyggð studdi það.“

Þorgeir segir að fjaðrafokið í kringum uppsögnina hafi örugglega litað kosningarnar að einhverju leyti. „ En aðalmálið er samt sem áður að nú lítum við fram á við. Við í T-listanum stöndum fyrir önnur vinnubrögð en hingað til hafa tíðkast í sveitarfélaginu og það er það sem fólk er að kalla eftir.“

Þorgeir segir fyrsta mál á dagskrá, nú þegar úrslitin eru ljós, að setjast niður með starfsfólkinu. "Fólkið er lykillinn að því að ná árangri og sækja fram. Ég er bara fullur eftirvæntingar og tilbúinn að fara aftur að vinna fyrir fólkið mitt í Strandabyggð," segir Þorgeir kampakátur.

Þorgeiri voru nýlega greiddar miskabætur vegna óþæginda í kjölfar uppsagnarinnar. Sveitarfélagið Strandabyggð þótti ekki hafa sýnt vilja til að leita sátta við fyrrverandi sveitarstjóra.