Þrír fyrrverandi starfsmenn Eflingar krefja félagið um laun sem þeir telja sig eiga inni. Málin þrjú eru nokkurra ára gömul en voru höfðuð í vor. Málin eru tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Starfsmennirnir eru Elín Hanna Kjartansdóttir, fyrrverandi bókari, Kristjana O. Valgeirsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri, og Anna Lísa Terrazas, sem var almennur starfsmaður. Telja þær að starfslokin hafi borið að með ólögmætum hætti og þær eigi nokkra mánuði inni af ógreiddum launum. Efling telur að gert hafi verið upp við þær samkvæmt gildandi samningum og reglum.

Málin komu upp í kjölfarið á kjöri Sólveigar Önnu Jónsdóttur formanns árið 2018. Þá um haustið komu Elín og Kristjana fram í fjölmiðlum, greindu frá því að þær væru í veikindaleyfi og sögðust ekki eiga afturkvæmt vegna framkomu nýrrar forystu. Vildu þær að samið yrði við sig því stutt væri í starfslok og erfitt að finna nýtt starf.

Deilurnar stóðu yfir í eitt og hálft ár og harðar ásakanir gengu á víxl. Vorið 2020 greindi Elín frá því í harðorðri ræðu á aðalfundi Eflingar að eftir að 18 mánaða veikindaleyfi hennar lauk hafi henni verið sagt upp störfum.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins voru sættir reyndar á þeim tíma sem málin voru í hámæli fjölmiðla. Það hefur ekki verið gert eftir að kærurnar komu fram í vor.