Fyrrverandi þjónustustjóri hjá Isavia hefur verið ákærður fyrir að þiggja mútur. RÚV greinir frá og Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi Isavia staðfestir þetta í samtali við Fréttablaðið.

Maðurinn hafði umsjón með bílastæðum Isavia við Keflavíkurflugvöll og er sagður hafa þegið um 3,5 milljónir króna frá íslensku tæknifyrirtæki í tengslum við kaup á bílastæðamiðum.

Þjónustustjórinn hafi fyrir hönd Isavia hætt viðskiptum við norskt fyrirtæki sem hafi áður séð um bílastæðamiðana og hafið viðskipti við íslenska fyrirtækið og séð til þess að Isavia borgaði óeðlilega hátt verð. Hann hafi skipt ávinningnum milli sín og framkvæmdastjóra umrædds tæknifyrirtækis, en hann hefur einnig verið ákærður.

Greiðslurnar voru skráðar fyrir ráðgjöf sem talið er vera yfirvarp fyrir mútugreiðslurnar.

Isavia fer fram á tólf milljónir í skaðabætur.

Að sögn RÚV, sem hefur ákæruna undir höndum, komst Isavia á snoðir um málið þegar fyrrverandi starfsmaður tæknifyrirtækisins kom fram og uppljóstraði um málið árið 2017. Uppljóstrarinn hafi átt í samskiptum við umræddan þjónustustjóra milliliðalaust en við rannsókn málsins hafi hins vegar ekki þótt tilefni til að ákæra manninn.

Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi Isavia gat ekki veitt nánari upplýsingar um málið en ákæran verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í desember.