Jóhann Karl I., fyrrverandi Spánarkonungur, felur sig á lúxushóteli í Abú Dabí, höfuðborg Sameinuðu arabísku furstadæmanna. En eins og greint hefur verið frá liggur hann undir grun um spillingu í heimalandinu og ákvað að fara í útlegð.

Jóhann Karl varð konungur árið 1975 eftir að einræðisherrann Francisco Franco lést og gegndi því hlutverki allt til ársins 2014, þegar hann sagði af sér í kjölfar mikillar gagnrýni fyrir lífsstíl óhófs og vellystinga. Sonur hans Filippus VI. tók við, en Jóhann Karl ber þó enn titilinn konungur emeritus.

Síðan þá hafa ýmis mál komist í fjölmiðla, meðal annars gruggugir fjármálagjörningar í Sádí-Arabíu, og í júní síðastliðnum ákvað ríkissaksóknari að hefja rannsókn á hendur honum. Fyrr í þessum mánuði var tilkynnt að Jóhann Karl færi í útlegð, en ekki hverjir myndu taka við honum.

Dagblaðið ABC á Spáni greindi frá því að Jóhann Karl hefði innritað sig á Emirates Palace-hótelið í Abú Dabí á mánudag. Vitað var að hann flaug í einkaflugvél frá borginni Vigo á norðvesturhluta Spánar á sunnudag. En sögusagnir höfðu gengið um að hann hefði flúið til hafnarborgarinnar Porto í Portúgal og þaðan yfir Atlantshafið til Dóminíska lýðveldisins. Nú er vitað að hann flaug til Parísar og þaðan til furstadæmanna.

Emirates Palace er fimm stjörnu lúxushótel í eigu konungsfjölskyldunnar í Abú Dabí. Eitt af þeim glæsilegustu í öllum Mið-Austurlöndum. Ekki er vitað hvort konungurinn fyrrverandi dvelji í furstadæmunum til lengdar, en vitað er að þar á hann góð tengsl, sem og víðar á Flóasvæðinu. Spænska konungsfjölskyldan hefur neitað að staðfesta eða segja hvar Jóhann Karl sé niðurkominn eða hvar hann muni dvelja, heldur muni hann sjálfur segja frá því, ef hann kýs svo.

ABC greinir frá því að Jóhann Karl hafi haldið sig innandyra og hafi stranga öryggisgæslu á hótelinu, til að verja sig fyrir blaðaljósmyndurum. Þá sé hann einnig orðinn 82 ára gamall og hitinn í borginni sé mikill. Hótelstjórinn á Emirates Palace þvertók þó fyrir að Jóhann Karl væri á staðnum. „Hér eru engir frægir eða afar mikilvægir gestir,“ sagði hann.