Fyrrverandi skipverji á togaranum Júlíusi Geirmundssyni hefur stefnt útgerðinni Hraðfrystihúsinu Gunnvöru fyrir ólögmæta uppsögn. Hafði hann starfað á skipinu í tæp níu ár til ársins 2016 en býr nú í Noregi.

Jónas Þór Jónasson, lögmaður mannsins og Félags vélstjóra og málmtæknimanna, segir hann hafa glímt við skammvinn andleg veikindi og slitið hásin í bumbubolta. Þá hafi hann verið látinn fara. Krafan í málinu sé rúmar 5 milljónir króna vegna launa á uppsagnarfresti. „Hann er hörkuduglegur, er á sjó í Noregi núna og í góðum málum,“ segir Jónas.

Jóhannes Bjarni Björnsson, lögmaður útgerðarinnar, vildi ekki tjá sig um ástæður uppsagnarinnar. Báðir lögmenn staðfestu að sættir hefðu verið reyndar en ekki tekist.

Í haust blossaði upp hópsmit af COVID-19 á togaranum og er það mál nú til rannsóknar hjá lögreglunni á Vestfjörðum. Í sjóprófi í lok nóvember vitnuðu skipverjarnir um þrýsting til að vinna þrátt fyrir veikindi og ótta við að missa vinnuna.

„Það kom fram í sjóprófunum, og menn vita það, að ef þeir verða veikir missa þeir vinnuna,“ segir Jónas. „Þeir geta ekki haft sjálfstæða skoðun á einu eða neinu, enda með fjölskyldur til að sjá fyrir. Það er allt undir. Því miður er þrælsóttinn ríkjandi.“