Bern­hard Esau, fyrr­verandi sjávar­út­vegs­ráð­herra Namibíu, hefur verið hand­tekinn í tengslum við rann­sókn á spillingar­málum og mútu­greiðslum í sjávar­út­vegi landsins. Þetta kemur fram í frétt miðilsins The Namibian og er það haft eftir Sebastian Ndeitunga, yfir­manni namibísku lög­reglunnar.

Í frétt miðilsins kemur fram að auk Esau hafi Ri­car­do Gusta­vo einnig verið hand­tekinn. Er hann við­skipta­jöfur og sagður tengjast James Hatuiku­lipi, einn þeirra sem titlaðir hafa verið „há­karlarnir“ í Sam­erja­málinu.

„Það er rétt að við höfum hand­tekið þá. Við höfum enn 48 klukku­stundir til að tryggja á­fram­haldandi rann­sókn,“ er haft eftir lög­reglu­stjóranum í fréttinni.

Líkt og Frétta­blaðið greindi frá sagði Esau af sér störfum sem ráð­herra í síðustu viku, á­samt Sacky Shangala, sem gegndi stöðu dóms­mála­ráð­herra landsins.

Sam­kvæmt frétt The Namibian kemur einnig fram að lög­reglan leiti nú þriggja annarra manna í tengslum við málið. Lög­reglu­stjórinn vill hins vegar ekki gefa upp hverjir það séu.