Fyrrverandi ráðherrar Norðausturkjördæmis telja það dapurt að kjördæmið sé í fyrsta sinn án ráðherra. Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær eru tíu af tólf ráðherrum á höfuðborgarsvæðinu og tveir nálægt því.

„Mér finnst þetta ekki gott,“ segir Valgerður Sverrisdóttir, sem var meðal annars utanríkisráðherra fyrir Framsóknarflokkinn.

Kom það mörgum á óvart að Ingibjörg Isaksen, oddviti flokksins, yrði ekki ráðherra í ljósi þess að hafa unnið stærsta kosningasigur landsins. „Það er ekki algengt að nýir þingmenn séu settir beint í ráðherrastól,“ segir Valgerður. Hún segist þó ekki efast um að bæði hún og Stefán Vagn Stefánsson, nýr oddviti í Norðvesturkjördæmi, verði ráðherrar í framtíðinni.

Ljóður á stjórninni

„Þetta er ljóður á ríkisstjórninni og nálægt því að vera vanvirðing við íbúa landsbyggðarinnar,“ segir Kristján L. Möller, fyrrverandi samgönguráðherra Samfylkingarinnar. „Jafnrétti á að vera á öllum sviðum, ekki aðeins milli karla og kvenna, heldur til dæmis milli höfuðborgar og landsbyggðar.“

Bendir hann á að fjárlög séu gerð af ráðherrum og um þau sé fjallað í ríkisstjórn áður en þau eru lögð fyrir Alþingi. Sáralitlar breytingar séu gerðar eftir það og því skipti þetta mjög miklu.

„Það er hætta á því að málefni landsbyggðarinnar verði undir,“ segir Kristján. „Byggðamál eru rædd í ríkisstjórn og ráðherrar úr landsbyggðarkjördæmum koma inn með önnur sjónarmið en ráðherrar af höfuðborgarsvæðinu.“

Vonandi tímabundið

„Að sjálfsögðu hefði það verið betra ef þannig tekst til,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, sem gegndi mörgum ráðherraembættum, þar á meðal í fjármálaráðuneytinu, aðspurður hvort ekki væri betra að hafa stólana dreifða um landið. Eins og Valgerður bendir hann þó á að mikið sé um nýliðun og þetta sé vonandi tímabundið ástand. Þetta séu þó vissulega tímamót fyrir kjördæmið.

Steingrímur tekur einnig undir með Kristjáni að jafnrétti milli landsbyggðar og höfuðborgar sé ekki síður mikilvægt en milli kynja. Eftir eigi þó að skipa nefndarformenn og fleiri stöður sem skipti máli.

„Mér líkar vel við margt af því sem lýtur að byggðamálum í stjórnarsáttmálanum,“ segir Steingrímur og nefnir sérstaklega að vinna eigi með stöðu Akureyrar sem nokkurs konar svæðishöfuðborgar. Þá segir hann þingmannahóp Norðausturkjördæmis öflugan og hafa alltaf staðið þétt saman.