Fyrrverandi alþingismennnirnir og ráðherrarnir Björn Bjarnason og Hjörleifur Guttormsson vilja breytingar á starfsemi köfunarfyrirtækja á Þingvöllum.

Báðir hafa Björn og Hjörleifur átt sæti í Þingvallanefnd; Hjörleifur árin 1980 til 1992 og Björn gegndi þar formennsku í sautján ár en lét af henni fyrir tíu árum.

Fyrir um ári síðan sendi Hjörleifur Þingvallanefnd ýmsar hugmyndir sínar um starfsemi Þingvallaþjóðgarðs. Var þar sérstaklega tekið á köfunarmálunum. Vildi Hjörleifur að slík umsvif yrðu flutt fjær þinghelginnni sjálfri og stakk upp á Rauðukusunesi í Kárastaðalandi, um tvo kílómetra suður af Valhallarreitnum og nálægt suðurmörkum þjóðgarðsins.

„Þar ganga inn í nesið vatnsfylltar gjár sem hentað geta til köfunar og ágæt sýn er þaðan út yfir vatnið. Þarna er kjörið að koma upp og þróa aðstöðu til kynningar á vatninu, ekki síst fyrir skólaæsku, en einnig fyrir áhugamenn um köfun og fyrir vöktunar- og rannsóknaraðila,“ sagði í tillögu Hjörleifs sem kvað auðvelt að koma þar upp bátanaustum og viðeigandi aðstöðu til siglinga.

„Um leið og þarna verði byggð upp aðstaða, meðal annars til köfunar, ber að leggja af köfun í Silfru í hjarta þjóðgarðsins, en 56 þúsund manns fóru í gjána á árinu 2017. Þessi starfsemi samræmist á engan hátt eðlilegum rekstri,“ sagði Hjörleifur og vitnaði í stefnu þjóðgarðsins að slíkri þjónustu yrði almennt valinn staður í hæfilegri fjarlægð frá þinghelginni.

„Auk þessa hafði ég oftsinnis gagnrýnt köfun í Silfru og framkvæmdir henni tengda við forsvarsmenn Þingvallanefndar,“ segir Hjöleifur við Fréttablaðið.

Eftir frétt Fréttablaðsins á þriðjudag um ósk heimsminjaskrifstofunnar um skýringar á köfunarþjónustunni við Silfru ræddi Björn Bjarnason málið á vefsíðunni sinni.

Björn Bjarnason telur líklegt að sáttaleið finnist
Fréttablaðið/GVA

„Þeir sem fara um þjóðgarðinn og sjá umsvif og mannvirki að baki Þingvallabæjarins (þó í skjóli fyrir þá sem í bænum eru) hljóta að reka upp stór augu. Af öllu umstanginu er augljóst að mikil ásókn er í Silfru. Hvort þessi starfsemi og það sem henni fylgir brjóti í bága við heimsminjaskráninguna kemur í ljós í ferlinu sem nú er hafið,“ skrifar Björn sem kveður deilu um málið geta orði langa og stranga þótt líklegra sé að sáttaleið finnist.

„Bókunaraðferðin sem beitt er vegna heimsókna í Silfru hefur nokkra sérstöðu hér. Þarna er um auðlindastýringu að ræða sem útfæra má með strangari skilyrðum en nú gilda vilji menn draga úr ágangi fólks og fylgihluta á þessum einstæða stað,“ segir í pistli Björns Bjarnasonar.