Sólveig Guðrún Pétursdóttir, fyrrverandi dóms- og kirkjumálaráðherra, var í gær sýknuð í Héraðsdómi Reykjavíkur af skaðabótakröfum Lyfjablóms, félags sem faðir látins eiginmanns hennar stofnaði árið 1999 áður en hann lést, en þá tóku börn hans við stjórn þess.
Sólveigu var stefnt ásamt fjórum öðrum aðilum og voru þau öll sýknuð. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ráðherrann fyrrverandi mætir í dómsal vegna mála er varða Lyfjablóm á einhvern hátt. Í júní á síðasta ári var hún sýknuð í tveimur málum er vörðuðu félagið. Og árið 2017 fór hún sjálf í mál við ríkið, sem hafði betur.
Málið sem héraðsdómur dæmdi í í gær varðar atvik sem gerðust á árunum 2004 og 2008, en aðallega atburð sem átti sér stað 20. janúar 2005 þegar 46 milljónir voru teknar af reikningi Lyfjablóms og færðar á reikning félagsins Mercatura.
Það gerðist þegar eiginmaður Sólveigar, sem nú er látinn, sá um rekstur Lyfjablóms og var einnig framkvæmdastjóri Mercatura.
Lögmaður Lyfjablóms vildi meina að með því hefði félagið orðið fyrir verulegu fjártjóni.

Hafi ekki heyrt um atvikin fyrr en mörgum árum síðar
Fram kemur að ástæða þess að Sólveigu sé stefnt sé sú að hún sitji á óskiptu búi mannsins síns. Stefnan byggði ekki á því að henni væri kunnugt um athafnir málsins.
Sólveig sagðist aldrei hafa haft nokkur minnstu afskipti af félögum eiginmanns hennar og ekki þekkt bókhaldsmál þeirra né skjalavörslu.
Hún sagði því að henni væri nánast „ókleift að verjast fullyrðingum stefnanda um atvik sem eiga að hafa gerst í rekstri þessara félaga fyrir 18 árum og hún ekki heyrt af fyrr en mörgum árum eftir lát eiginmanns síns.“
Fréttin hefur verið uppfærð.