Sólveig Guðrún Pétursdóttir, fyrrverandi dóms- og kirkjumálaráðherra og þingkona Sjálfstæðisflokksins, var í gær sýknuð í Héraðsdómi Reykjaness af skaðabótakröfum mágkonu sinnar, sem krafðist tæplega 28 milljóna króna af henni.

Málið varðar dánarbú, Kristins Björnssonar, sem lést árið 2015, en hann var eiginmaður Sólveigar og bróðir konunnar sem stefndi henni. En Sólveig hefur setið í óskiptu búi eftir andlát hans.

Kristinn átti ásamt systkinum sínum hlut í félaginu Björn Hallgrímsson ehf. en félagið hét í höfuðið á föður þeirra og starfsemi þess varðaði eignarhald í félögum, eins og Skeljungi, Árvakri, Nóa-Síríusi og Sjóvá.

Samkvæmt dómnum var það Kristinn sem sá að mestu um rekstur félagsins, og honum hafi verið „treyst fullkomlega af öllum hlutaðeigendum“.

„Ekki hafi verið haldnir formlegir fundir eða fundargerðir, en málin verið rædd og gerð upp með samskiptum milli aðila, svo sem í fjölskylduboðum. Ef á hafi þurft að halda hafi undirritanir farið fram með þeim hætti að Kristinn hafi mætt heim til viðkomandi með þau skjöl sem stjórnin þurfti formlega að samþykkja. Hafi þetta viðgengist með þessum hætti allan þann tíma sem systkinin voru eigendur félaganna, án athugasemda að því er séð verður,“ segir í dómnum um rekstur félagsins.

Vildi meina að bróðir hennar hafi beitt blekkingum

Systir Kristins taldi að bróðir sinn hafi leynt veigamiklum atriðum um skyldu hennar um þátttöku um ákveðnar greiðslur, og þá hafi hann beitt blekkingum í málinu.

Fjárhæðirnar sem konan krafðist voru annars vegar 12.998.059 krónur og hins vegar 15.000.000. krónur.

Í niðurstöðu dómsins segir að Sólveig hafi enga aðkomu haft að þeirri meintu saknæmu háttsemi sem málið grundvallast á. Þá þótti ósannað að Kristinn Björnsson hafi blekkt systur sína til greiðslu.

Líkt og áður segir var Sólveig  Guðrún  Pétursdóttir sýknuð í málinu og er mágkonu hennar gert að greiða þrjár milljónir í málskostnað.