Maðurinn, sem situr í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa skotið á bíl Dags B. Eggertssonar borgarstóra og húsnæði samfylkingarinnar um síðustu helgi, heitir Hallur Gunnar Erlingsson og er fyrrverandi lögreglumaður. Þetta herma staðfestar heimildir Fréttablaðsins.

Hallur var dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn þremur ungum stúlkum árið 2003 og hlaut átján mánaða dóm sem hann lauk afplánun á árið 2005. Hann fékk uppreist æru árið 2010. Árið 2017 stigu þá brotaþolar hans opinberlega fram og tóku þátt í mikilli þjóðfélagsumræðu um uppreist æru.

Hallur var á laugardaginnn úrskurðaður í tveggja daga gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna af dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur.

Úrskurðurinn var framlengdur til föstudags í gær, og þá einnig á þeim grundvelli að maðurinn teljist hættulegur. Málið er rannsakað sem valdstjórnarbrot og fer embætti Héraðssaksóknara með rannsóknina.

Öðrum manni sem handtekinn var um miðja síðustu viku hefur verið sleppt en töluvert magn af skotvopnum var haldlagt á heimili hans, þar af tveir rifflar.

Málið hefur verið í algerum forgangi fyrst hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og nú hjá Héraðssaksóknara. Rannsókn málsins miðar að sögn vel.