Búist er við að Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra taki þátt í forvali Vinstri grænna í Suðvesturkjördæmi en ekki Reykjavík eða á heimavelli í Norðvesturkjördæmi.

Oddviti VG í Suðvesturkjördæmi 2017, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, er farin til Samfylkingar en Guðmundur gæti fengið samkeppni frá þingmanninum Ólafi Þór Gunnarssyni sem hefur ekki enn tekið ákvörðun. Talið er að varaþingmaðurinn Una Hildardóttir taki þátt í prófkjörinu en ekki Bjarki Bjarkason, forseti bæjarstjórnar í Mosfellsbæ.

Róbert Marshall, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar og fyrrverandi alþingismaðir og Orri Páll Jóhannsson, aðstoðarmaður Guðmundar Inga, eru líklegir til að fara fram í Reykjavíkurforvalinu.

Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir eiga oddvitasætin vís og ekki hefur heyrst annað en að þingmaðurinn Steinunn Þóra Árnadóttir taki þátt í forvalinu.

Kolbeinn Óttarsson Proppé mætir líklega Heiðu Guðnýju Ásgeirsdóttur fjalldalabónda og Hólmfríði Árnadóttur, formanni svæðisfélagsins á Suðurnesjum, í oddvitaslag í Suðurkjördæmi um miðjan apríl en sú síðarnefnda tilkynnti um framboð sitt í nóvember.

Súgfirðingurinn Lilja Rafney Magnúsdóttir keppir líklega við Bjarna Jónsson, sveitarstjórnarmann í Skagafirði, um oddvitastöðu í Norðvesturkjördæmi.

Í Norðausturkjördæmi sækist þingmaðurinn Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir eftir fyrsta sæti. Það gera einnig Óli Halldórsson, sveitarstjórnarmaður í Norðurþingi, og Ingibjörg Þórðardóttir, ritari flokksins. Kári Gautason, framkvæmdastjóri þingflokksins, og Jódís Skúladóttir, sveitarstjórnarmaður í Múlaþingi, sækjast eftir þingsæti. Forvalið þar verður í febrúar.