Sigurður Eyþórsson, sérfræðingur á skrifstofu landbúnaðar í matvælaráðuneytinu og fyrrverandi framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, vinnur fyrir starfshóp Svandísar Svavarsdóttur ráðherra um blóðmerahald í febrúar.

Frétt uppfærð klukkan 13:17. Áður kom fram að Sigurður væri í starfshópi. Hið rétta samkvæmt ráðuneytinu er að hann er starfsmaður starfshópsins.

Svandís skipaði starfshóp í desember í fyrra til að fjalla um blóðtöku úr fylfullum hryssum til framleiðslu frjósemislyfja handa dýrum og mun hópurinn skila af sér skýrslu fyrir 1. júní næstkomandi.

Þau gögn sem starfshópurinn hefur unnið með eru til að mynda ritrýndar greinar frá evrópska dýralæknasamtökunum, eftirlitsskýrslur Matvælastofnunar og umsagnir hagsmunaaðila á heimasíðu Alþingis við frumvarp Ingu Sæland um dýravelferð. Í hópnum eiga sæti:

  • Iðunn Guðjónsdóttir, sérfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er formaður hópsins, skipuð án tilnefningar.
  • Sigríður Björnsdóttir, yfirdýralæknir í hrossasjúkdómum hjá Matvælastofnun (tilnefnd af MAST).
  • Ólafur Páll Jónsson, prófessor við Háskóla Íslands, tilnefndur af Siðfræðistofnun Háskóla Íslands.

Sigurður Eyþórsson, sérfræðingur á skrifstofu landbúnaðar í matvælaráðuneytinu, sem var í febrúar valinn sem starfsmaður starfshópsins.

Áður en Sigurður var ráðinn til ráðuneytisins var hann málsvari bænda, þar á meðal hrossabænda sem halda blóðmerar, sem framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands.

Ekki var tilkynnt um að Sigurður hefði bæst við sem starfsmaður hópsins á vef Stjórnarráðsins en Dúi J. Landmark, upplýsingafulltrúi Matvælaráðuneytisins, staðfestir þetta í samtali við Fréttablaðið.

„Ekki var um sérstaka ráðningu að ræða þar sem Sigurður er starfsmaður ráðuneytisins og sinnir störfum innan þess. Sem slíkur var hann fenginn til að vinna fyrir hópinn líkt og venja er með starfsmenn ráðuneyta,“ sagði Dúi.

Aðspurður hvers vegna hann hafi bæst í hópinn segir Dúi að það hafi verið að ósk starfshópsins. Sigurður er fenginn til verkefnisins að ákvörðun skrifstofustjóra landbúnaðar að sögn Dúa.

„Starfsmaður hóps er ekki með slíkt heldur vinnur fyrir hópinn að ákvörðun skrifstofustjóra. Hann sér um gagnaöflun, önnur verkefni sem hópurinn felur honum og leggur til sína sérþekkingu hverju sinni eftir eðli máls. Þeir sem sitja í starfshópi hafa atkvæðisrétt og skrifa undir þau álit sem skilað er til ráðherra, starfsmaður hefur hvorki atkvæðisrétt né skrifar undir álit.“

Dúi tekur sérstaklega fram að starfsmaður ráðherraskipaðs starfshóps er því ekki hluti hópsins.