Sveinn Margeirs­son, fyrr­verandi for­stjóri Mat­ís, hefur verið á­kærður af lög­reglu­stjóranum á Norður­landi vestra fyrir brot á lögum um slátrun og slátu­r­að­ferðir. Sveini var sagt upp störfum í desember síðast­liðnum vegna „trúnaðar­brests“ eftir að hann tók þátt í um­deildu heima­slátrunar­verk­efni.

Í á­kærunni, sem Frétta­blaðið hefur undir höndum, segir að Sveinn hafi á bænda­markaði í Hofs­ósi í Skaga­firði í septem­ber í fyrra brotið lög með því að hafa staðið að sölu og dreifingu á fersku lamba­kjöti af gripum sem slátrað hafði verði utan lög­gilts slátur­húss.

Bænda­blaðið greindi í ágústí fyrra að Mat­væla­stofnun hefði farið fram á opin­bera rann­sókn á hendur Sveini. Sveinn stað­festi í sam­tali við blaðið að rann­sókn væri hafinn en kvaðst hafa talið sig vera að sinna hlut­verki fé­lagsins.

„Já, ég var í skýrslu­töku hjá lög­reglunni þar sem ég var spurður út í fram­kvæmdina á þessari til­raun fyrir tæpu ári síðan. Ég var auð­vitað á­byrgur fyrir þessu en ég taldi mig bara vera að sinna hlut­verki fé­lagsins, sem er að auka verð­mæti land­búnaðar­af­urða og bæta mat­væla­öryggi,“ sagði Sveinn í sam­tali við Bænda­blaðið. Þá bætti hann því við að flestir viti að heima­slátrun tíðkist víða og sagðist hafa ferðast víða í þeim til­gangi að skoða fyrir­komu­lag í öðrum löndum.

Sveinn starfaði sem for­stjóri Mat­ís í átta ár. Mbl greindi frá því í febrúar að trúnaðar­brestur hafi leitt til upp­sagnarinnar, og að deilt hafi verið um hvort Sveinn hafi upp­lýst stjórn Matíss um þátt­töku sína í heima­slátrunar­verk­efninu.

Lög­reglan á Norður­landi vestra fer fram á að Sveinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakar­kostnaðar. Málið verður þing­fest í Héraðs­dómi Norður­lands vestra þann 5. nóvember næst­komandi.