Lögregla réðst í dag til aðgerða gegn stjórn spænska fótboltaliðsins Barcelona og handtók meðal annars framkvæmdastjóra félagsins, Òscar Grau, lögfræðing liðsins Román Gómez Pontí og Josep Maria Bartomeu, fyrrverandi forseta félagsins. Þeir eru grunaðir um spillingu og peningaþvætti samkvæmt útvarpsstöðinni Cadena SER.
Uppfært kl. 12:53: Samkvæmt spænskum fjölmiðlum tengjast handtökurnar máli sem fengið hefur nafnið „Barca-gate.“ Þar voru fyrrverandi og núverandi stjórnarmenn liðsins sakaðir um ófrægingarherferð gegn fyrrverandi og þáverandi leikmönnum liðsins sem höfðu gagnrýnt Bartomeu og stjórn hans. Bartomeu og fleiri voru sakaðir um að hafa ráðið almannatengla til að sverta mannorð leikmannanna, þar á meðal aðalstjörnu þess, Lionel Messi.
Lögreglan í Katalóníu hefur ekki gefið upp fjölda eða nöfn þeirra handteknu en liðið hefur staðfest að handtökur hafi verið gerðar á skrifstofum þess á leikvanginum Camp Nou.
Bartomeu og stjórn hans sagði af sér í fyrra eftir að upp komst um aðför þeirra að Messi. Stjórn félagsins gaf út skýrslu óháðs eftirlitsaðila um málið þar sem sagði að ekkert saknæmt hefði átt sér stað.
Liðið hefur átt í erfiðleikum vegna átaka um stjórn þess og gríðarlegra skulda sem á því hvíla. Þær hafa aukist mikið vegna COVID-19 faraldursins.
Um næstu helgi fara fram forsetakosningar Barcelona en þar hafa atkvæðisrétt um 20 þúsund meðlimir félagsins, svokallaðir „socios“ og hafa þeir þegar greitt atkvæði með póstkosningu.
Fréttin verður uppfærð.