Sig­hvatur Björg­vins­son þing­maður, sem sat meira og minna á Al­þingi árin 1974-2001, segir að þing­farar­kaup eitt og sér eigi að duga þing­mönnum. Launa­sporslur þing­manna hafi um­turnast frá þeim tíma þegar hann var þing­maður og ráð­herra.

„Mér finnst kostnaðurinn við stjórn­sýsluna orðinn ansi mikill. Ég sat á þingi í tæp þrjá­tíu ár og þá var enginn greinar­munur gerður á því hvað þú gerðir sem þing­maður. Allir voru á þing­farar­kaupi og skipti ekki máli hvort þú varst for­maður í nefnd eða á for­seta­stól. Þá voru allir með sömu laun,“ segir Sig­hvatur, sem var um tíma for­maður Al­þýðu­flokksins.

Sig­hvatur segir að breyting á þessu hafi orðið 1995 þegar þá­verandi ráð­herra, Ólafi G. Einars­syni, hafi verið kippt út úr ráðu­neytinu og settur for­seti þingsins. „Þá var á­kveðið að launa Ólaf sem for­seta þingsins eins og ráð­herra, það hafði aldrei verið gert áður.“

Nú séu þeir tímar að þingið launi for­menn nefnda sér­stak­lega með upp­bótum, sem aldrei hafi tíðkast. „Svo er verið að launa for­menn þing­flokka sér­stak­lega sem aldrei var í minni tíð og líka þarf að launa for­menn flokka sem sam­kvæmt þing­skapa­lögum hafa þó engu hlut­verki að gegna á Al­þingi,“ segir Sig­hvatur.

Launin dugðu vel

Þá gagn­rýnir hann að for­menn flokka hafi heimildir til að ráða sér að­stoðar­menn á kostnað þingsins. Það sé an­kanna­legt að þing­menn hafi sjálfir tekið á­kvörðun um það. „Þing­farar­kaupið segir ekki lengur til um launa­kjör þing­manna, það bætist svo margt við.“

Þótt lang­flestir þing­menn hafi áður fyrr verið á strípuðu þing­farar­kaupi segir Sig­hvatur að honum hafi fundist launin duga vel. Eftir­laun hans og annarra fyrr­verandi þing­manna dugi einnig vel. Þá hugnist honum ekki þær breytingar sem ríkis­stjórnin hefur gert með upp­stokkun ráðu­neyta.

„Stjórn­kerfið er sjálf­stæður aðili sem búið er að byggja upp á löngum tíma til að það skapi traust. Fólkið sem vinnur við þetta þarf að vera vel að sér, hver í sinni grein. Nú er verið að slíta þetta allt í sundur,“ segir Sig­hvatur.

„Ég held að þessar breytingar muni skapa starfs­fólki ráðu­neytanna mikla erfið­leika og skapa vanda við trú­verðug­leika. Tökum dæmi þegar um­hverfis- og orku­mál eru í sama ráðu­neyti. Hvernig ætla menn að tryggja jafn­vægi þarna á milli? Það verður mjög erfitt. Mér líst ekkert á þetta,“ segir Sig­hvatur.