Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, liggur nú undir feldi með minnisblað frá sóttvarnalækni sem inniheldur tillögur um hertari aðgerðir í baráttunni við kórónaveiruna. Ljóst er að verið er að skoða hvort breyta þurfi áherslum á landamærum sem og frekari aðgerðir innanlands, til dæmis breytingar á fjöldatakmörkunum og mögulega innleiðingu á tveggja metra reglunni í einhverju formi.

Ragnar Freyr Ingvarsson læknir var umsjónarmaður COVID-19 göngudeildar Landspítalans á meðan faraldurinn reis sem hæst fyrr á árinu. Hann var gagnrýninn á þá ákvörðun stjórnvalda að opna landið þann 15. júní síðastliðinn og sagði önnur sjónarmið greinilega ráða för en heilbrigði Íslendinga. Ákvörðunin hafi verið tekin án víðtæks samráðs við heilbrigðisstarfsfólk og núna bendi margt til þess að í óefni sé komið.

„Ég mæli eindregið með því að yfirvöld hlusti á raddir heilbrigðisstarfsfólks og bregðist hratt við með harðari aðgerðum og ítarlegri skimun. Að mínu mati er tækifæri til þess að forða stórslysi með því að innleiða slíkar reglur fyrir verslunarmannahelgina. Við verðum að snúa vörn í sókn,“ segir Ragnar Freyr.

Hann segir margt benda til þess að einkennalitlir smitberar séu úti í samfélaginu. „Það er mjög óþægilegt að vita til þess að fjórir ólíkir hópar hafi smitast af veirunni og ekki hafi tekist að finna sameiginlegan snertiflöt þessara hópa. Við verðum að vera á varðbergi.“

Skilaboð Ragnars eru skýr. „Ég held að Íslendingar ættu að forðast fjöldaskemmtanir og njóta helgarinnar í faðmi sinnar nánustu,“ segir læknirinn.

Ljóst er að skoðanir eru skiptar. Sigríður Á. Andersen, alþingismaður og fyrrum ráðherra, birti hugleiðingar á Facebook-síðu sinni þar sem hún sagði greinilega farið að örla á nýju markmiði heilbrigðisyfirvalda. Áður hafi verið talað um „að fletja út kúrfuna“ en nú sé markmiðið að ekkert smit greinist hérlendis.

SigríðurÁAndersen.jpg

Sigríður Á. Andersen

„Samkvæmt helstu sérfræðingum í þessum efnum er það þó allsendis óraunhæft markmið. Skilaboð þeirra hafa þvert á móti verið þau að við munum þurfa að lifa með þessari veiru næstu árin. Verkefnið hlýtur því að vera að undirbúa okkur fyrir það. Ekki með hræðsluáróðri eða síendurteknum opinberum hugleiðingum um „skref til baka“ í átt að einangrun og hafta sem við vitum nú þegar að hefur feigðina í för með sér þótt ekki endilega af völdum C19,“ skrifaði Sigríður.

Hún kallar eftir því viðhorfi stjórnvalda að upplýsingum um sjúkdóminn og meðhöndlun hans verði miðlað með jákvæðum hætti svo hver og einn, ekki síst þeir sem tilheyra viðkvæmum hópum, geti lagt mat á eigin lífsstíl á næstu misserum.