Gunnar Hrafn Jónsson, fyrrum þingmaður Pírata, segir frá því í færslu á Facebook í dag að það verði gert árangurslaust fjárnám hjá honum á morgun í miðjum jólamánuði.

Í færslunni segist hann eiga von á símtali frá skattinum þegar misheppnuðu fjárnámi sé lokið til að semja um skuldina. Hann hafi ekki tök á því að greiða niður skuldina með bótum sem dugi ekki til framfærslu.

Færslu Gunnar má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.

Í færslunni kemur Gunnar inn á það að starfsmaður Ríkisskattstjóra hafi skorað á hann að hunsa lögregluboð um mætingu til Sýslumanns á morgun og veltir fyrir sér hvort að það sé í skjön við hlutverk opinberra stofnana að hvetja fólk til fjarvistar.

Að sama skapi hafi Gunnar komist að því eftir að hafa rætt málið við aðra öryrkja að það taki því ekki að mæta.

„Mér skilst reyndar af öðrum öryrkjum að þetta sé rétt, það taki því ekkert að mæta, kosti bara strætópening sem við gætum annars sparað. Ekkert gerist nema þú ert lýstur aumingi í fjarvist eða viðurvist þinni og tékkað hvort þú eigir nokkuð bíldruslu sem megi selja fyrir 50 þúsund kall upp í milljónaskuld. Gott að ég tók aldrei bílpróf.“