Öldunga­ráðið, sem er fé­lags­skapur fyrrum starfs­manna Land­helgis­gæslu Ís­lands, lýsa furðu sinni og van­þóknun á þeirri „ó­á­byrgðu“ á­kvörðun Jóns Gunnars­sonar dóms­mála­ráð­herra, að selja eftir­lits­flug­vélina TF-SIF.

Fyrir­huguð sala á TF-SIF hefur valdið miklum usla og hafa fjöl­margir verið undrandi á á­kvörðun dóms­mála­ráð­herra. Meðal annars hefur ráð­herra verið kallaður fyrir fjár­laga­nefnd, en ekki er talin vera heimild fyrir sölunni í nú­gildandi fjár­lögum.

„TF-SIF er enn meðal öflugust eftir­lits- og björgunar­flug­véla í okkar heims­hluta og sala hennar til þess að fá „ein­hverja“ ó­dýrari flug­vél í staðinn vægast sagt afar stórt skref aftur­á­bak,“ segir í á­lyktun Öldunga­ráðsins.

Öldunga­ráðið bendir á fjöl­hæfni flug­vélarinnar og að hún sé mikil­væg í eftir­lits-og björgunar­starfi Land­helgis­gæslunnar. Einnig gegnir hún mikil­vægu hlut­verki í mengunar­eftir­liti og al­manna­vörnum og hefur hún nýst vel fyrir harð­vísinda­menn vegna eld­gosa hér á landi.

Öldunga­ráðið efast um að minni flug­vél geti borið allan nauð­syn­legan eftir­lits­búnað sem er að finna í TF-SIF. Þá efast Öldunga­ráðið á að um ein­hvern sparnað sé að ræða ef önnur vél fari í nauð­syn­legar breytingar til að geta sinnt þessu starfi.

„Sú rök­semd dóms­mála­ráð­herra að flug­vélin sé alltaf „suður í höfum“ og þess vegna eigi að selja hana stenst enga skoðun. Flug­vélin var upp­haf­lega send í verk­efni er­lendis í hruninu til að hægt væri að halda björgunar­getu með þyrlum Land­helgis­gæslunnar gangandi. Síðan hefur alla­vega til skamms tíma verið lagt fyrir Land­helgis­gæsluna að afla tekna. Það hefur verið gert með þátt­töku í landa­mæra­eftir­liti Schen­gen á vegum Fron­tex. Áður einnig með varð­skipum,“ segir Öldunga­ráðið og kalla eftir auknum fjár­veitingum til Land­helgis­gæslunnar svo stofnunin geti sinnt sínum lög­bundnu verk­efnum.

„Við teljum að með þessari á­kvörðun dóms­mála­ráð­herra sé verið að færa eftir­lit á­samt leit- og björgun úr lofti ára­tugi aftur í tímann. Það er okkar skoðun að dóms­mála­ráð­herra þurfi að endur­skoða þessa á­kvörðun sína og ráðast ekki í slíkar breytingar nema að undan­genginni við­eig­andi greiningar­vinnu og á­hættu­mati,“ segir Öldunga­ráðið að lokum.