Öldungaráðið, sem er félagsskapur fyrrum starfsmanna Landhelgisgæslu Íslands, lýsa furðu sinni og vanþóknun á þeirri „óábyrgðu“ ákvörðun Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra, að selja eftirlitsflugvélina TF-SIF.
Fyrirhuguð sala á TF-SIF hefur valdið miklum usla og hafa fjölmargir verið undrandi á ákvörðun dómsmálaráðherra. Meðal annars hefur ráðherra verið kallaður fyrir fjárlaganefnd, en ekki er talin vera heimild fyrir sölunni í núgildandi fjárlögum.
„TF-SIF er enn meðal öflugust eftirlits- og björgunarflugvéla í okkar heimshluta og sala hennar til þess að fá „einhverja“ ódýrari flugvél í staðinn vægast sagt afar stórt skref afturábak,“ segir í ályktun Öldungaráðsins.
Öldungaráðið bendir á fjölhæfni flugvélarinnar og að hún sé mikilvæg í eftirlits-og björgunarstarfi Landhelgisgæslunnar. Einnig gegnir hún mikilvægu hlutverki í mengunareftirliti og almannavörnum og hefur hún nýst vel fyrir harðvísindamenn vegna eldgosa hér á landi.
Öldungaráðið efast um að minni flugvél geti borið allan nauðsynlegan eftirlitsbúnað sem er að finna í TF-SIF. Þá efast Öldungaráðið á að um einhvern sparnað sé að ræða ef önnur vél fari í nauðsynlegar breytingar til að geta sinnt þessu starfi.
„Sú röksemd dómsmálaráðherra að flugvélin sé alltaf „suður í höfum“ og þess vegna eigi að selja hana stenst enga skoðun. Flugvélin var upphaflega send í verkefni erlendis í hruninu til að hægt væri að halda björgunargetu með þyrlum Landhelgisgæslunnar gangandi. Síðan hefur allavega til skamms tíma verið lagt fyrir Landhelgisgæsluna að afla tekna. Það hefur verið gert með þátttöku í landamæraeftirliti Schengen á vegum Frontex. Áður einnig með varðskipum,“ segir Öldungaráðið og kalla eftir auknum fjárveitingum til Landhelgisgæslunnar svo stofnunin geti sinnt sínum lögbundnu verkefnum.
„Við teljum að með þessari ákvörðun dómsmálaráðherra sé verið að færa eftirlit ásamt leit- og björgun úr lofti áratugi aftur í tímann. Það er okkar skoðun að dómsmálaráðherra þurfi að endurskoða þessa ákvörðun sína og ráðast ekki í slíkar breytingar nema að undangenginni viðeigandi greiningarvinnu og áhættumati,“ segir Öldungaráðið að lokum.