Evrópska geim­ferða­stofnunin ESA hefur á­kveðið að fyrrum Ólympíu­farinn, John Mc­fall verði fyrsti geimfarinn með líkamlega fötlun. BBC greinir frá.

Mc­Fall er 41 árs Breti sem missti hægri fótinn sinn í mótor­hjóla­slysi þegar hann var ní­tján ára. Eftir slysið stundaði hann sprett­hlaup og hefur hann meðal annars keppt á Ólympíu­leikum fatlaðra fyrir hönd Bret­lands.

Í til­kynningu frá ESA kemur fram að Mc­Fall sé í hóp fyrstu geim­fara til að hljóta þjálfun í þrettán ár.

Mc­Fall sagði á blaða­manna­fundi að hann vonast til þess að verk­efnið sýni að mann­eskjur með fötlun geti farið í geiminn og að þetta sendi sterk skila­boð til mann­kynsins.

„Geimurinn er fyrir alla,“ sagði Mc­Fall á blaða­manna­fundi.

ESA sagði að Mc­Fall væri hluti af verk­efni þeirra að reyna bæta skilning og sigrast á þeim hindrunum sem geim­flug hefur í för með sér fyrir geim­fara með líkam­lega fötlun. Stofnunin segist ekki geta lofað að Mc­Fall fari út í geim, en allt verði reynt til þess að hann verði fyrsti fatlaði geim­fari sögunnar.