Ásta Óla Hall­dórs­dóttir, fyrrum hjól­hýsa­eig­andi á Laugar­vatni til tíu ára, bendir á að engin lög séu til á Ís­landi um lang­tíma­leigu fyrir hjól­hýsi, í grein sem hún sendi Frétta­blaðinu.

„Ekkert sam­ræmi hefur verið á milli sveitar­fé­laga hvernig þessum málum skuli háttað og víst er um að kenna að að­eins eru til lög um tjald­svæði þar sem fólk mætir með sitt tjald, tjald­vagn, felli­hýsi eða hjól­hýsi og gistir nokkrar nætur og greiðir nætur­gjald,“ er meðal þess sem Ásta skrifar.

Ár er síðan sveita­stjórn Blá­skóga­byggðar tók þá á­kvörðun að loka hjól­hýsa­hverfinu á Laugar­vatni og ný­lega hafnaði sveitar­stjórnin beiðni Sam­hjóls, sam­taka hjól­hýsa­eig­enda á Laugar­vatni, um að heimila fjögurra mánaða við­veru á hjól­hýsa­svæðinu með leyfi til að geyma hjól­hýsin þar yfir vetrar­tímann.

Ljóst er að með því hefur síðasti naglinn verið rekinn í elsta hjól­hýsa­svæði á landinu sem starf­rækt hefur verið í um 50 ár.

„Laga­lega séð eru að­eins „tjald­svæði“ á landinu en sveitar­fé­lög hafa samt sem áður leigt út skika fyrir „föst“ hjól­hýsi á árs­grund­velli. Ég velti fyrir mér spurningunni; er allt í lagi að leigja granda­lausu fólki stæði undir hjól­hýsi og láta það skrifa undir samning um leigu til eins árs í senn undir hjól­hýsi á hjól­hýsa­svæði sem er í laga­legum skilningi ekki til?“ spyr Ásta.

Bretar settu lög um langtímaleigu 1960

Hún bendir á að þegar árið 1960 hafi Bretar sett sín fyrstu lög um lang­tíma-hjól­hýsa­svæði sem hafi verið betr­um­bætt nokkrum sinnum til að að­laga þau betur að leigj­endum. Ásta segist hafa kynnt sér lög um lang­tíma­leigu hjól­hýsa­svæða í mörgum löndum þau eigi flest fjögur at­riði sam­eigin­leg í grunninn:

„1. Sam­þykkt deili­skipu­lag sem ekki má breyta eftir að fyrsti leigjandinn er kominn inn á svæðið. Allir í­búar þurfa að sam­þykkja breytingar ef stungið er upp á breytingu á deili­skipu­lagi síðar. 2. Vatns­lögn að hverri lóð. 3. Raf­magn að hverri lóð. 4. Frá­veita.“

Að sögn Ástu er frá­veita hvergi til staðar fyrir leigj­endur á nú­verandi hjól­hýsa­svæðum á Ís­landi. Hún segist hafa heyrt af því að leigj­endur á Laugar­vatni hafi fengið að setja niður rot­þrær en slíkt hafi ekki verið leyft á Laugar­vatni sem henni þykir meira en furðu­legt.

Þá segir hún að vegna vöntunar á lögum og reglu­gerðum um hvað þurfi að vera til staðar á hjól­hýsa­svæðum þá hafi leigj­endur á þessum svæðum nánast engan rétt.

„Svona lög eru löngu tíma­bær og vonandi líta þau dagsins ljós fljót­lega,“ skrifar Ásta.

Að lokum bendir hún á að erfitt geti verið að finna þeim fjölda hjól­hýsa sem út­hýst verður frá Laugar­vatni nýjan sama­stað.

„Hvert eiga hjól­hýsa­eig­endur sem reknir eru af svæðinu við Laugar­vatn að fara með sín hjól­hýsi? Þau nýrri fara væntan­lega á götuna og bætir það hvorki um­ferðina eða á­stand vega að fá allt í einu yfir 100 hjól­hýsi á götuna til við­bótar við öll þau nýju sem fólk er að flytja inn sjálft eða kaupa hér­lendis og svo þau gömlu sem ekki geta farið á götuna fara væntan­lega á haugana en svo eru það stöðu­hýsin sem enginn vill hafa hvað með þau?“