„Ég vil sjá á grundvelli hvaða rannsókna og hagsmuna verið er að setja þetta í börnin,“ segir María Grétarsdóttir sem spyr bæjaryfirvöld í Garðabæ hvort þau hyggist koma að bólusetningu barna í bæjarfélaginu.

Að sögn Maríu er tilefni fyrirspurnar hennar fréttir af því að hefja eigi bólusetningar á börnum gegn Covid. Spurningin sé hvort sveitarfélög ætli að nota skólastarf til að taka þátt í bólusetningunum og bera þannig ábyrgð á að börn verði bólusett á Íslandi.

María, sem er fyrrverandi formaður barnaverndarnefndar Garðabæjar, spyr í erindi sínu annars vegar hvort bæjaryfirvöld eða stofnanir hans hafi hvatt til bólusetninga á aldurshópnum tólf til átján ára og hins vegar hvort bærinn eða stofnanir hans hyggist hvetja til bólusetninga á fimm til ellefu ára börnum.

„Mig hefði líka langað að sjá á grundvelli hvaða rannsókna þeir telja að það þurfi að bólusetja börn með tilraunalyfi. Þannig að mér finnst mörgum spurningum ósvarað áður en kemur að því að fara að setja tilraunlyf í börn og á hvaða forsendum það er,“ segir María sem sjálf kveðst vera andvíg því að bærinn hafi einhverja aðkomu að slíku máli.

„Ég vil sjá á grundvelli hvaða rannsókna og hagsmuna verið er að setja þetta í börnin.“

Gunnar Einarsson bæjarstjóri í Garðabæ.

Bólusetning gæti farið fram í heilsugæslustöð

Bæjarráð vísaði fyrirspurn Maríu til Gunnars Einarssonar bæjarstjóra sem í samtali við Fréttablaðið kveðst ekki enn hafa haft ráðrúm til að kynna sér hvort bærinn hafi að einhverju leyti, til dæmis í skólum bæjarins, hvatt til bólusetninga á þeim aldurshópum sem María spyr um.

Aðspurð hvort hún hafi vísbendingar um bærinn ætlaði að taka þátt í bólusetningum barna kveður María svo vera.

„Ég hef frétt af því að það eru hjúkrunarfræðingar mættir inn í skólana, þótt ég viti ekki til þess hér í Garðabæ, til þess að taka út skólana með það í huga hvar þessum bólusetningum innan gæsalappa verði best fyrir komið í skólanum,“ segir María.

„Í fljótu bragði séð finnst mér ekkert endilega skynsamlegt að bólusetning barna færi fram innan skólanna,“ segir Gunnar bæjarstjóri. „Mér finndist eðlilegt ef að foreldrar vilja láta bólusetja börnin sín að þá væri það gert kannski í heilsugæslustöð eða íþróttahúsi en ekki endilega inni í skólanum.“

Aðspurð kveðst María hafa bólusetningar innan gæsalappa því ekki sé um að ræða hefðbundið bóluefni heldur tilraunaefni fram til ársins 2023.

Þannig telur María að með bólusetningunni gegn Covid væri verið að setja börn í hættu. „Ég vil sjá á grundvelli hvaða rannsókna og hagsmuna verið er að setja þetta í börnin. Hér á Íslandi hafa ekki borist fregnir af því að þeim sé búin hætta af því að veikjast af Covid,“ segir hún.

Vill ekki bólusetja sín börn

Sjálf kveðst María alls ekki myndu láta bólusetja sín börn með bóluefnunum sem nú bjóðast gegn Covid og að hún hafi afþakkað bólusetningu fyrir sig. Hún hafni fullyrðingum Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis og fleiri um að börnin verði betur sett gagnvart Covid með bólusetningu.

„Á grundvelli hvaða gagna setur hann þetta fram?“ spyr María. „Ég hef ekki séð þau gögn. Ég kalla eftir umræðu og því að við séum að vinna faglega og að það séu lögð fram gögn til staðfestingar þegar afleiðingar af þessu geta hugsanlega orðið afdrifaríkar.“

María kveðst telja sig vel lesna varðandi þessi mál og hafi reynt að kynna sér þau mjög vel. „Það þekkja þeir sem hafa verið samstarfsmenn í bæjarpólitíkinni. Þess vegna fannst mér að mér bæri að vekja fólk til umhugsunar og hefja þessa rannsóknarvinnu og kanna hvaða gögn eru undirliggjandi,“ segir hún.

María var varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ til ársins 2010 en bauð sig svo fram með Miðflokknum í sveitarstjórnarkosningum 2018.

María var varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ í átta ár fram til ársins 2010. Sem slík var hún formaður barnaverndarnefndar í bænum auk þess að sitja í ýmsum nefndum. Síðar sagði hún skilið við Sjálfstæðisflokkinn og bauð sig fram fyrir Fólkið í bænum næstu tvö kjörtímabil. Hún var síðan efst á framboðslista Miðflokksins í bænum í kosningunum 2018 en náði ekki kjöri.

„Ég kalla eftir umræðu og faglegum vinnubrögðum,. Það er alltof lítil umfjöllun búin að vera um þessi mál,“ ítrekar María Grétarsdóttir.

Gunnar segist ekki hafa haft ráðrúm til að kynna sér hvort bærinn hafi að einhverju leyti, til dæmis í skólum bæjarins, hvatt til bólusetninga á þessum aldurshópum sem María spyr um.