„Ég er auðvitað ánægð með að fallist er á allar kröfur Minjastofnunar. Þeir gera þær breytingar sem voru nauðsynlegar til að virða og vernda Víkurgarð,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta og menningarmálaráðherra í samtali við Fréttablaðið, innt eftir svörum hvernig niðurstaðan í máli Víkurgarðs horfi við henni.

Greint var frá því fyrr í kvöld að Minja­stofnun hafi dregið til baka frið­lýsingar­til­lögu sína um stækkun frið­lýsts svæðis í garðinum eftir að Lindar­vatn, fram­kvæmda­aðili við upp­byggingu hótels á Lands­símareitnum, féllst á sjónar­mið stofnunarinnar. 

„Fram­kvæmda­aðilinn er að gefa eftir með sín fyrri á­form og hótelið tekur breytingum,“ segir Lilja og bætir við að fyrri frið­lýsing, frá 8. janúar, hafi verið nauð­syn­leg til að ná þessu fram. 

Lindar­vatn hefur lagt fram til­lögu um að færa inn­gang sem fyrir­hugaður var inn í garðinn og flytja hann norðar nær Aðal­stræti. Nýjum inn­gangi verður einnig bætt við á suð­vestur­horni byggingarinnar sem snýr út að Kirkju­stræti enda sam­ræmist slíkt deili­skipu­lagi. Þannig sé skilið á milli garðsins og hótelsins sem nú er í byggingu á Lands­símareitnum. 

Heilt yfir fái Víkur­garður „þann virðingar­sess sem honum ber sem einn merkasti minja­staður þjóðarinnar, þar verði opið og frjálst al­mennings­rými þar sem saga garðsins fær notið sín og fyrir­komu­lag hans verði fram­vegis óháð starf­semi á nær­liggjandi lóðum“ líkt og segir í til­kynningu frá ráðu­neytinu. 

„Aðal­at­riðið er að vernda Víkur­garð og að hann fái að njóta sín sem sá sögu­staður sem hann er og það er Minja­stofnun að tryggja,“ segir Lilja að lokum.