Elon Musk, eigandi Tesla og jafnframt ríkasti maður í heimi, bauðst fyrst til að kaupa samfélagsmiðilinn Twitter í apríl á þessu ári. Þá sagði Musk að Twitter þyrfti á ýmsum breytingum að halda og að hann væri lykillinn að því að opna fyrir alla þá möguleika sem fyrirtækið byggi yfir.

Daginn sem yfirtakan átti sér stað lýsti Musk því yfir að hann væri að kaupa Twitter til að hjálpa mannkyninu og vildi skapa heilbrigðan vettvang fyrir umræður.

„Twitter má ekki breytast í helvíti þar sem fólk segir hvað sem það vill án afleiðinga,“ skrifaði Musk á Twitter.

Auðjöfurinn lýsir sjálfum sér sem alræðismanni málfrelsis og var meðal annars mótfallinn því að Twitter bannaði Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, á miðlinum eftir að stuðningsmenn hans réðust á þinghúsið í Washington 6. janúar í fyrra.

Margir hægrisinnaðir stjórnmálamenn hafa fagnað yfirtökunni, þar á meðal öldungadeildarþingmaðurinn Ted Cruz sem sagði kaupin vera eina mikilvægustu þróunina í nútímabaráttu málfrelsis.

Elon Musk hefur einnig sagst vilja breyta samskiptamiðlinum í nýtt forrit sem hann kallar „X“. Smáforritið yrði hannað í anda kínverska skilaboðaforritsins WeChat þar sem notendur „geta gert allt“ eins og Musk orðar það.

Auk þess að senda skilaboð væri einnig hægt að nota smáforritið til að panta mat eða leigubíl, greiða fyrir vörur, spila tölvuleiki og fara inn á heimabanka.

Elon Musk.

Málfrelsisyfirlýsing Elons Musk hefur hins vegar verið gagnrýnd eftir að nýi eigandinn ákvað að banna alla eftirhermu-reikninga á Twitter.

Fljótlega eftir kaupin byrjuðu margir notendur að breyta Twitter-nafni sínu í „Elon Musk“ og þóttust vera hann til að geta gert grín að honum. Uppistandarinn Kathy Griffin var ein þeirra sem tóku þátt í þeirri herferð og var Twitter-aðgangi hennar lokað í kjölfarið.

Í gegnum árin hefur það reynst stjórnendum Twitter erfitt að reka fyrirtækið með hagnaði en samskiptamiðillinn reiðir sig mikið á auglýsingatekjur sem nema í kringum 90 prósentum af heildartekjum Twitter.

Eftir yfirtökuna hafa hins vegar nokkur fyrirtæki ákveðið að hætta alveg að auglýsa þar sökum óvissu á miðlinum.

Fyrirtækin General Motors, Audi, Pfizer, General Mills, Volkswagen og United Airlines hafa öll sagt skilið við Twitter og óttast margir að hatursorðræða muni aukast til muna á miðlinum.

Samkvæmt rannsóknarhópnum Network Contagion Research Institute mældist 500 prósenta aukning á notkun „N-orðins“ fyrstu 12 tímana eftir yfirtöku Elons Musk og hafði Montclair-háskólinn einnig rakið um 400 haturs-tíst á klukkutíma, fjórfalt meiri en vikuna fyrir yfirtökuna.