Mál­stofan Þátt­taka fyrir­tækja í þróunar­sam­vinnu fór fram síðast­liðin þriðju­dag en hún er hluti af sam­starfs­á­takinu Þróunar­sam­vinna ber á­vöxt. Mark­mið á­taksins er að hvetja fyrir­tæki til þróunar­sam­vinnu. Fyrir­tækið Á­veitan ehf. á Akur­eyri var eitt þeirra fyrir­tækja sem kynnti þróunar­sam­vinnu sína á mál­stofunni.

Fyrir­tækið Á­veitan ehf. var stofnað árið 1997 og sér­hæfa þau sig í al­hliða pípu­lögnum á­samt ýmis konar verk­efnum tengd iðnaði. Starfs­menn fyrir­tækisins eru um tuttugu talsins og ára­tuga reynsla þeirra á milli að sögn Jóhönnu Sól­rúnar Norð­fjörð sem er eig­andi fyrir­tækisins á­samt manni sínum, Haraldi Páls­syni.

Taka þátt í hjálpar­starfi á vegum ABC barna­hjálpar

Jóhanna og Haraldur fóru í febrúar árið 2015 til Bur­kina Faso í Vestur Afríku. Þar heim­sóttu þau borgina Bobo til að taka þátt í hjálpar­starfi á vegum ABC barna­hjálpar. „Við höfum frá barn­æsku haft á­huga á að styðja við menntun barna í fá­tækum ríkjum og má segja að í þessari ferð höfum við áttað okkur á hve lítið mál er fyrir okkur að flytja þekkinguna sem við búum yfir til þeirra sem verst standa,“ segir Jóhanna í tölvu­pósta­sam­skiptum við Frétta­blaðið.

Eftir ferðina 2015 hafa þau farið á hverju ári til Bobo í Bur­kina Faso og tekið þátt í þróunar­starfi við skólann þar sem rekinn er af ABC barna­hjálp. Um 800 nem­endur eru við skólann og á­samt bók­námi er boðið upp á tvenns konar verk­nám, sauma­deild og véla­deild. Einnig er öflugt í­þrótta­starf og tón­listar­deild fyrir nem­endur.

Jóhanna, Fatoumata, Haraldur og Emanuel. Fatoumata er nemandi við skólann og Emanuel sér um allt íþrótta- og tónlistarstarfið.
Mynd/Áveitan ehf.

Líta á hreint vatn sem mann­réttindi

Að sögn Jóhönnu hafa stærstu verk­efni Á­veitunnar í þessum ferðum verið að koma fyrir vatns­dælum í bor­holur, setja upp sólar­sellur og vatns­tanka og koma fyrir vatns­lögnum á öllu skóla­svæðinu. Nýjasta verk­efni þeirra, í febrúar á þessu ári, var að leggja á­veitu- og neyslu­vatns­lagnir að nýjum land­búnaðar­skóla og kvenna­at­hvarfi fyrir ungar stúlkur sem reknar hafa verið að heiman, ó­frískar eða með lítil börn.

„Vatn er ein mikil­vægasta náttúrauð­lind jarðar og undir­staða alls lífs, hvar sem er í heiminum. Vatn er grund­vallar­at­riði þegar kemur að hrein­læti og bar­áttu við alls konar sjúk­dóma og á sumum svæðum í heiminum þurfa margir að ganga marga kíló­metra eftir vatni hvern dag. Í sí­fellt auknum mæli er litið á hreint neyslu­vatn sem mann­réttindi í al­þjóða­sam­fé­laginu,“ segir Jóhanna.

Myndir frá verkefnum Áveitunnar.
Mynd/Áveitan ehf.

Segir mikilvægt að miðla reynslu og þekkingu

Meðal næstu verk­efna hjá Á­veitunni er að stækka vatns­tanka og leggja fleiri neyslu­vatns- og á­veitu­lagnir. Jóhanna segist ekki vera viss hve­nær þau fari aftur til Bobo en að þau fylgist vel með á­standinu og meti að­stæður.

„Verk­efnin sem við höfum komið að hafa gengið mjög vel og erum við þess full­viss að þróunar­sam­vinna ber á­vöxt,“ segir Jóhanna. Hún segir mikil­vægt að miðla reynslu og þekkingu og lítur sem svo á að það sé sam­fé­lags­leg á­byrgð að bregðast við þörfinni sem er til staðar.