„Það er náttúrulega fyrirsláttur hjá stjórnarflokkunum og ríkisstjórninni að segja að kórónuveirufaraldurinn hafi komið í veg fyrir miðhálendisþjóðgarð,“ segir Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingkona Samfylkingarinnar. Hún segir málið hafa verið ágætlega undirbúið af umhverfisráðherra, með tveggja ára samráðsferli með fundahöldum með sveitarfélögum um allt land. Því verði faraldrinum ekki kennt um.

Rósa gagnrýnir þá niðurstöðu sem málið hefur fengið, en umhverfis- og samgöngunefnd þingsins leggur til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. „Hvaða ríkisstjórnar er verið að vísa þessu máli til?“ spyr Rósa og bendir á að kosningar séu handan við hornið og því algerlega óvíst hvaða ríkisstjórn þingið ætlist til að taki málið upp.

„Það er bara alveg ljóst að það er ósamstaða hjá ríkisstjórnarflokkunum um að klára þetta stóra mál sem var eitt stærsta mál ef ekki það stærsta í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar af hálfu Vinstri grænna,“ segir Rósa.

Aðspurð segir hún að vel hefði verið hægt að klára málið hefðu stjórnarflokkarnir komið sér saman um það. „Það er ljóst að VG hefur beðið mjög mikinn ósigur í þessu máli og Sjálfstæðisflokkurinn hefur sigrað,“ segir Rósa. Andstaða Framsóknar við málið hafi svo komið fram á síðustu stigum málsins og endanlega gengið frá því.

Við þetta bætist svo að umhverfisráðherra hafi heldur ekki tekist að koma rammaáætlun í gegn, né frumvarpi sínu um þjóðgarðastofnun. „Það er ansi rýr uppskera hjá umhverfisráðherra á þessu kjörtímabili,“ segir Rósa, sem yfirgaf Vinstri græn á kjörtímabilinu vegna óánægju með stjórnarsamstarfið.