Bandarísk stjórnvöld hafa sett á fót athugun á því hvernig Boeing 737 MAX-vélarnar fengu flugleyfi. Tvær farþegavélar hafa farist á undanförnum fimm mánuðum. Hundruð létu lífið en vélarnar hafa verið kyrrsettar.

Fram hefur komið að vísbendingar séu um að líkindi séu með því með hvaða hætti vélarnar hröpuðu. Boeing hefur gefið út að þörf sé á uppfærslu á þeim búnaði vélarinnar sem hindrar að þær ofrísi.

Samgönguráðherra Bandaríkjanna, Elaine Chao, hefur sett það verkefni í eftirlitsaðila að rannsaka hvernig staðið var að því að afla 737 MAX tilskilinna leyfa og aðstoða bandarísk flugmálayfirvöld að ganga úr skugga um öryggisreglum sé fylgt í hvívetna.

Ýmsir aðilar hafa nú sett í gang athuganir á því hvað olli slysunum tveimur. Þeirra á meðal er Flugöryggisstofnun Evrópu (EASA) en hún hefur heitið því að gera sjálfstæða úttekt á vélunum. Þær munu ekki fara í loftið fyrr en fullnægjandi svör hafi fengist við því hvers vegna þær hröpuðu.