Fyrirlestri Ásgeirs Jónssonar, seðlabankastjóra, um efnahagsmál á landnámsöld sem átti að fara fram í dag á vegum Miðaldastofu Háskóla Íslands hefur verið frestað.
Þetta staðfestir Haraldur Bernharðsson, forstöðumaður Miðaldastofu Háskóla Íslands.
„Honum var frestað vegna þess að fyrirlesara var borið á brýn að fara frjálslega með hugmyndir og ályktanir annars höfundar,“ segir Haraldur og bætir við að það sé rétt að fyrirlesari fái svigrúm til að svara þessum ásökunum.
„Miðaldastofa er ekki rétti vettvangurinn til þess að útkljá ágreining af þessum toga.“
Sakar Ásgeir um ritstuld
Bergsveinn Birgisson, rithöfundur, greindi frá því í pistli á vef Vísis í gær að um umfangsmikinn ritstuld Ásgeirs væri að ræða í nýútgefinni bók hans, Eyjan hans Ingólfs.
Í pistlinum bar Bergsveinn upp alvarlegar ásakanir í garð Ásgeirs og segir engan vafa leika á því að hann hafi í veigamiklum atriðum stuðst við bók hans, Leitina að svarta víkingnum.

Frestað að frumkvæði Miðaldastofu
Haraldur segir að frestun fyrirlestrarins hafi verið að þeirra frumkvæði, „af áður greindri ástæðu, að þetta mál myndi einfaldlega skyggja á efni fyrirlestrarins þannig að það rétt fá botn í þetta mál fyrst.
Í Háskóla Íslands eru akademísk vinnubrögð í hávegum höfð og þessar ásakanir eru alvarlegar og það verður að svara þeim og vinna úr þeim vandlega.“
Haraldur ítrekar þó að ekki sé verið að fella neina dóma um málið með því að fresta fyrirlestrinum.
Aðspurður hvenær fyrirlesturinn sé væntanlegur aftur á dagskrá segir Haraldur að það verði þegar þetta tiltekna mál hafi verið meðhöndlað og útkljáð.