Óánægja ríkir meðal nemenda í Háskóla Íslands vegna fyrirhugaðra staðprófa í desember.

„Mér finnst með öllu óábyrgt að stefna lífi stúdenta í hættu,“ segir Lenya Rún Taha Ka­rim, nemandi í lögfræði. Hún bætir við að nemendur hafi verið í svipaðri stöðu í fyrra og búið sé að sanna að hægt sé að taka öll prófin að heiman.

„Við vitum að búnaðurinn er til staðar, við vitum að þetta er hægt,“ segir Lenya Rún. Afsökunin um fordæmalausar aðstæður gangi ekki lengur upp.

Sjálf er Lenya Rún á lokaári í lögfræði og segist hún gera ráð fyrir að deildin verði með staðpróf. „Við erum ekki búin að fá tilkynningu um hvernig prófunum verður háttað,“ segir hún og bætir við að það geti valdið óöryggi meðal stúdenta að vita lítið.

Lenya Rún Taha Karim, nemandi í lögfræði.

Uppfylli kröfur sóttvarnaryfirvalda

Jón Atli Benediktsson, rektor, segir málið ekki alveg svona klippt og skorið. Það sé misjafnt eftir námskeiðum hvernig prófum verði háttað. Hann segir gæði skipta verulegu máli þegar verið sé að ákveða hvort það verði staðpróf eða heimapróf í námskeiðum. „Það verður bara að meta þetta í hverju tilviki fyrir sig,“ segir Jón Atli.

„Við höfum verið að ræða þetta við fulltrúa stúdenta og ég hef nú ekki orðið var við annað en að þetta mæti skilningi.“

„Nú eru flestir bólusettir og við uppfyllum allar kröfur sóttvarnaryfirvalda svo þetta á nú ekki að vera neitt vandamál,“ segir Jón Atli. Hann bendir á að nú sé verið að leggja áherslu á að klára próftöfluna þannig að nemendur hvað bíði þeirra og geti byrjað að undirbúa sig.

Sér úrræði fyrir nemendur í sóttkví og einangrun

Að sögn Jón Atla er verið að huga að sér úrræðum fyrir nemendur sem verða í sóttkví eða einangrun á próftíma, þannig að allir geti tekið prófin. „Það er verið að skoða þetta allt og við höfum hagsmuni nemenda að leiðarljósi. Við reynum að gera það besta í stöðunni og líka hugsa um gæði námsins,“ segir hann.

Jón Atli bendir á að það skipti nemendur máli að námsmatið sé gott, „það sé ekki verið að kasta til höndum þar.“

Aðspurður hvort það komi til greina að skylda nemendur í hraðpróf fyrir staðpróf segir Jón Atli að ekki sé verið að ræða það sem stendur. Hann telur að það sé óþarfi í þessu tilviki og að það væri óþarflega mikið flækjustig fyrir nemendur.

Jón Atli segir að hingað til hafi ekki komið upp smit í prófum þrátt fyrir mörg staðpróf.

„Við tökum þetta mjög alvarlega þegar við erum að ákveða þetta. Höfum hagsmuni nemenda að leiðarljósi, velferð þeirra og heilsu,“ segir Jón Atli að lokum.