Kínversk stjórnvöld áforma nú að setja ný lög um þjóðaröryggi í Hong Kong. Þetta kom fram í máli talsmanns kínverska þingsins í gær. Samkvæmt fjölmiðlum í Hong Kong er lögunum ætlað að koma í veg fyrir öll utanaðkomandi afskipti af málefnum sjálfstjórnarhéraðsins.

Kínverska þingið kemur til starfa í dag og mun fjalla um málið. Gríðarleg mótmæli spruttu upp í Hong Kong á síðasta ári vegna lagafrumvarps sem hefði heimilað framsal grunaðra glæpamanna til Kína.

Stjórnarandstæðingar í Hong Kong hafa lengi barist gegn lögum um þjóðaröryggi. Þeir telja slík áform ógna sjálfstjórn héraðsins sem hefur verið tryggð með meginreglunni „eitt land, tvö kerfi“ frá því að Bretar létu af stjórninni 1997.

Reuters fréttastofan hafði eftir stjórnarandstöðuþingmanninum Dennis Kwok að verði löggjöfin samþykkt muni það þýða endalok Hong Kong. Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði að Bandaríkin myndu bregðast harkalega við láti Kínverjar verða af áformunum.