„Við erum ekki með eina elítu á Íslandi sem stýrir öllu samfélaginu, við erum með margar elítur og þær eru tiltölulega sjálfstæðar frá hvor annarri, með undantekningum,“ segir

Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og höfundur bókarinnar Elítur og valdakerfi á Íslandi. Í bókinni er fjallað um valdakerfin í íslensku samfélagi allt frá 19.öld. Gunnar Helgi ræddi bókina í Fréttavaktinni á Hringbraut.

„Hér áður fyrr vorum við með flokkselítur, raunverulegar í reykfylltum bakherbergjum, sem að réðu öllu. Þær réðu hver var ráðinn, hver fékk bankalán, hver fékk útflutningsleyfi og gjaldeyri. Í dag eru engar slíkar elítur til,“ segir hann. „Pólitíska elítan talar um það fyrir kosningar eins og hún ráði öllu en þegar á hólminn er komið þá ræður hún ekki nema litlum hluta af því sem hún lofar.“

Gunnar Helgi segir að það hafi verið mjög óheilbrigt valdakerfi hér á landi þegar litið er til miðrar síðustu aldar. „Þú fékkst í raun og veru ekki athafnafrelsi nema í gegnum flokkana. Það veitti flokkunum geðþóttavald sem ég myndi ekki hika við að kalla vissa tegund af spillingu.“

Þetta fyrirbæri gekk lengra hér á landi en á hinum Norðurlöndunum. „Þetta er sérstaða Íslands, svona fyrirgreiðslukerfi, þú finnur engin stór merki ummerki um það á hinum Norðurlöndunum. Þú finnur það sunnar í Evrópu en ekki á Norðurlöndunum.“

Steingrímur valdi frekar Framsóknarmann

Fyrirgreiðslukerfið hafi þótt eðlilegt hér á landi, rifjar Gunnar Helgi upp að þegar hann hafi talað varfærnislega um spillingareinkenni á þjóðfélaginu fyrir þremur áratugum hafi fólk fórnað höndum. „Það var talinn eðlilegur hluti af flokkakerfinu að flokkarnir hylltu sínu fólki. Steingrímur Hermannsson sagði það opinskátt að ef hann ætti að velja um tvo jafn hæfa umsækjendur myndi hann alltaf velja Framsóknarmanninn.“

Hann hafi ekki fengið það óþvegið fyrir. „Alls ekki.“

Gunnar Helgi segir að það hafi dregið úr spillingu hér á landi þegar kemur að mismunun, þar hafi margræði tekið við.

Mun eima af flokksræðinu áfram?

„Margræðið er dálítið kalt samfélag, þú getur ekki fengið kerfið til að taka á þínum sérstöku vandamálum.“ Fyrirgreiðslustjórnmálamaðurinn hefur ekki lengur nein tól við höndina. Slíkt getur svo skapað jarðveg fyrir lýðskrum sem lofar breytingum á flóknu margræðiskerfi.