Teodoro Locsin, utanríkisráðherra Filippseyja, fyrirgefur Íslendingum ályktun í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og segir hana „dauða.“

„Þessi ályktun var einskis nýt sem skýrir af hverju hún var misheppnuð. Hún gekk ekki í gegn. Meirihlutinni annað hvort kaus ekki eða kaus gegn henni þannig að þetta var dauð ályktun,“ sagði Locsin í sjónvarpsviðtali hjá ANC í dag.

Ályktun Íslands var samþykkt með 18 atkvæðum í ráðinu þann 11. júlí síðastliðinn. Mannréttindavaktin og fleiri samtök á þessu sviði hafa fagnað ályktuninni og segja hana gefa Filippseyingum von um að stjórnvöld verði láta sæta ábyrgð á „stríðinu gegn eiturlyfjum.“ Þúsundir hafa verið drepnir, annað hvort af lögreglunni sjálfri eða óbreyttum borgurum.

Sagðist Locsin ekki ætla að hleypa eftirlitsfólki frá Sameinuðu þjóðunum inn í landið til að gera úttekt á stöðu mannréttinda.

„Ég vil ekki að þau komi hingað og haldi síðan fram lygum byggt á því að þau hafi séð með eigin augum. Hvað ætla þau að gera? Grafa fólk upp?,“ sagði Locsin. Þá sé fráleitt að 22 þúsund manns hafi verið drepin í stríðinu.

Þrátt fyrir þetta segir Locsin að Filippseyjar muni ekki slíta samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar eða Mannréttindaráðið. Íslendingum sé fyrirgefið.