Heilsugæslan á Seltjarnarnesi er fyrsta heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu sem býður upp á þjónustu sjúkraþjálfara fyrir fólk með stoðkerfisvandamál. Um tilraunaverkefni er að ræða sem bæði forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, Óskar Reykdalsson, og fagstjóri hjúkrunar á Heilsugæslu Seltjarnarness og Vesturbæjar, Emilía Petra Jóhannsdóttir, segja ganga vonum framar.

„Heilsugæslunni á Seltjarnarnesi hefur alltaf gengið vel rekstrarlega svo þau höfðu möguleikann á því að fara með þetta verkefni í gang, það eru því miður ekki allar stöðvar í þeirri stöðu,“ segir Óskar.

Á öllum heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins er starfandi hreyfistjóri, það er sjúkraþjálfari með aðsetur á heilsugæslustöðvum sem aðstoðar fólk við að fara af stað í hreyfingu. „Í þessu tilraunaverkefni er um að ræða sjúkraþjálfara sem aðstoðar fólk sem glímir við skyndilega verki, veikindi eða stoðkerfisvandamál en þarf ekki langtíma sjúkraþjálfun,“ segir Emilía.

Sjúkraþjálfarinn metur sjúklinginn og leiðbeinir honum með æfingar. Ef þörf er á getur sjúkraþjálfarinn sent tilvísun um frekari meðferð í tilvísanagátt Heilsuveru. „Svona nýtum við betur mann­aflann hérna innanhúss og læknir þarf ekki að koma að hverri beiðni,“ segir Emilía.

Þá segir hún verkefnið geta verið fyrirbyggjandi fyrir fólk með stoðkerfisvandamál. Séu sjúklingar meðhöndlaðir snemma sé hægt að sporna við vandamálum sem annars gætu orðið. „Við fórum upphaflega af stað með þetta verkefni vegna þess að við sáum þörfina. Fólk hefur almennt verið ánægt með þjónustuna og við sjáum fyrir okkur að veita hana áfram,“ segir Emilía.

„Þetta er hluti af okkar framtíðarsýn, að fjölga fagstéttum innan heilsugæslunnar og veita aukna þjónustu,“ segir Óskar.