Íbúar í Árborg gætu orðið varir við truflanir á vatnsveitu tengdar breytingum á aðveitulögnum í sveitarfélaginu. Þó nokkur vandamál hafa komið upp á svæðinu að undanförnu.

„Síðustu tvö til þrjú árin höfum við verið að tengja upp á nýtt í kringum nýju hringtorgin á Selfossi, og þá höfum við þurft að taka heita vatnið við ströndina hjá Eyrarbakka og Stokkseyri,“ segir Sigurður Þór Halldórsson, veitustjóri Selfossveitna um aðgerðirnar.

„Nýja hringtorgið við Víkurheiði er þó síðasta hringtorgið í bili.“

Sigurður bendir á að af og til komi upp lekar í lögnunum.

„Þetta ætti ekki að gerast oftar en kannski einu sinni til tvisvar á ári út af eðlilegum ástæðum,“ segir hann. „Það er reyndar þannig að bilanir koma oftar upp í kerfum sem eru komin til ára sinna. Þá þarf auðvitað endurnýjunarplan og það tekur tíma.“

Sigurður segir að nú sé unnið í að byggja nýja dælustöð sem muni veita aukinn þrýsting til strandarinnar og fyrirbyggja frekari vandamál í framtíðinni, til að mynda við fyrirhugaða aukna uppbyggingu á Eyrarbakka og Stokkseyri.