Tónlistarhópurinn Cauda Collective hefur það að markmiði að blanda klassískri kammertónlist saman við nýja tónlist og flétta saman við önnur listform. Í grunninn er um að ræða strengja-dúó, skipað Þórdísi Gerði Jónsdóttur og Sigrúnu Harðardóttur, sem við spurðum út í verkefnið.

„Hópurinn tekur á sig ýmsar myndir, stækkar og teygir sig í ýmsar áttir, allt eftir verkefnavali hverju sinni. Í starfi hópsins er leitað skapandi leiða til að miðla tónlist og brjóta upp hefðbundna tónleikaformið svo að útkoman verði áhugaverð fyrir áhorfendur og flytjendur, en þó alltaf með það að leiðarljósi að þjóna tónlistinni,“ segir Sigrún.

„Áhorfendur þurfa ekkert að þekkja til sögu klassískrar tónlistar til að njóta, hver og einn kemur á sínum forsendum og túlkar tónleikana á sinn hátt.“

„Við Þórdís Gerður erum góðar vinkonur og samstarfskonur og okkur var farið að þyrsta í að gera skapandi verkefni í tónlistinni. Okkur langaði að ögra sjálfum okkur, fara aðeins út fyrir kassann, prófa eitthvað nýtt og sjá hvað gerðist. Skapa umhverfi þar sem þetta væri hægt. Þá varð Cauda Collective til.“

Sigrún segir suma tónlistarunnendur smeyka við klassíska tónleika. „Sumir verða óöruggir í formföstu andrúmsloftinu, finnst óþægilegt að vita ekki hvenær á að klappa og sleppa því bara að koma á tónleika frekar en að koma og líða ekki vel með það. Sígild og samtímatónlist er alls ekki óaðgengileg tónlist og við viljum að allir geti upplifað tónlistina á sinn hátt. Áhorfendur þurfa ekkert að þekkja til sögu klassískrar tónlistar til að njóta, hver og einn kemur á sínum forsendum og túlkar tónleikana á sinn hátt,“ útskýrir hún.

Hópurinn brýtur hið sígilda tónleikaform upp á ýmsan hátt. „Möguleikarnir eru endalausir, en markmiðið er að fá inn nýja tónleikagesti sem ekki hafa vanið komur sínar á klassíska tónleika, og hrista aðeins upp í þeim sem þekkja formið vel og vilja sjá nýja nálgun.“

Á tónleikunum Ástarjátning, sem fara fram á morgun, spila sjónrænir töfrar leikhússins stóra rullu. „Norðurljósasalur Hörpu er gullfallegur salur og býður upp á mikla möguleika. Hægt er að skipta um liti í hliðum veggjanna og stilla ljósin á marga vegu. Það verður svo sannarlega nýtt á þessum tónleikum, en Eva Björg Harðardóttir, leikmynda- og búningahönnuður, sér um þá hlið. Hún hefur einnig hannað mjög áhugaverða leikmynd sem felur í sér fimm metra háan skúlptúr í laginu eins og hjarta, sko líffærið hjarta, ekki hitt,“ segir Sigrún og hlær. „Við hljóðfæraleikararnir erum klæddir í föt sem hún hefur hannað og saumað og ljósin yfir áhorfendunum eru dimmari en gengur og gerist á tónleikum og minna þar af leiðandi meira á leikhús.“

Á tónleikunum á morgun verða flutt verk eftir íslensku tónskáldin Björk Níelsdóttur, sem einnig syngur með hópnum, og Halldór Smárason, ungversk/austurríska tónskáldið György Ligeti, tékkneska tónskáldið Leoš Janáček og franska tónskáldið Ernest Chausson. Verkin voru samin á árunum 1898-2018 og fela öll í sér ástarjátningu á einn eða annan hátt, enda um tímalaust yrkisefni að ræða.

„Verk Janáčeks er stórbrotið tónverk sem er í senn brothætt og kraftmikið, einlægt og fullt af mikilmennskubrjálæði. Verkið var innblásið af langri og innilegri vináttu hans og Kamila Strösslová, giftrar konu sem var 38 árum yngri en hann. Strengjakvartettinn endurspeglar eðli sambands þeirra, en þau skiptust á um 700 ástarbréfum. Þó voru þau bæði í hjónabandi og höfðu bara hist einu sinni.“