Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu er nú með reykköfunaræfingu í húsi við Vitastíg.

Áhyggjufullir vegfarendur höfðu samband við Fréttablaðið og töldu að um væri að ræða eldsvoða en vakthafandi varðstjóri slökkviliðsins leiðrétti þann misskilning í samtali við blaðamann.

„Nei nei, þetta er ekkert útkall. Við erum bara á æfingu,“ sagði varðstjórinn. Slökkvilið er að vísu reglulega með æfingar en hafa nú hús til umráða sem fyllt hefur verið af reyk.

„Við fylltum húsið af reyk og sendum mannskap inn, bæði nýliða og reynda slökkviliðsmenn. Þetta er spennandi æfing þar sem við höfum ekki alltaf hús til umráða fyrir slík verkefni,“ sagði varðstjórinn.