Þrjátíu og sjö prósent Frakka segjast ekki ætla að fá bólusetningu gegn COVID-19 samkvæmt nýrri sjö landa könnun fyrirtækisins Kantar. Töluverð andstæða mælist einnig í Bandaríkjunum og Þýskalandi þar sem um fjórðungur hyggst afþakka bólusetningu.

Könnunin sýnir að áhyggjurnar sem frönsk yfirvöld hafa haft af vilja þjóðarinnar til bólusetningar eru ekki ástæðulausar. Hafa margir stjórnmálamenn talað fyrir bólusetningarskyldu í landinu, meðal annars Jean Castex forsætisráðherra og Yannick Jadot, leiðtogi Græningja. Engu að síður hefur Emmanuel Macron forseti lýst því yfir að bólusetningar muni ekki verða skylda í landinu.

Könnun Kanter sýnir fylgni á milli trausts fólks til bólusetninga og traustsins á stjórnvöldum og hæfni þeirra til þess að afla og dreifa bóluefnum. Kemur því nokkuð á óvart að næstmesta traustið mælist á Ítalíu, þar sem ríkisstjórnin er nýfallin, en þar hyggjast aðeins 12 prósent afþakka bólusetningu. Indland og Bretland mælast á svipuðum slóðum og í Hollandi hyggjast 17 prósent afþakka.

„Auk félagsfræðilegra og stjórnmálalegra þátta spilar tvennt inn í vantraust Frakka á bólusetningu við COVID-19, traust gagnvart lýðræðislegum stofnunum og vísindamönnum,“ sagði Antoine Bristielle aðstoðarprófessor við Grenoble-háskóla, við CNBC í janúar, en hann hefur rannsakað vantraust þjóðarinnar.

Upp hafa komið hneykslismál tengd heilbrigðisvísindum í Frakklandi og fyrri bólusetningarherferðir, svo sem gegn svínaflensunni, hafa ekki gengið snurðulaust fyrir sig. Samfélagsmiðlar og hröð útbreiðsla samsæriskenninga og falsfrétta hefur ekki hjálpað til. Í tilfelli COVID-19 eru margir sem vantreysta bóluefnunum í ljósi þess hversu stuttan tíma tók að búa þau til.

Stjórnmálaskoðanir tengjast vilja fólks til þess að láta bólusetja sig og birtist vantraustið einkum hjá flokkum yst á hægri vængnum og popúlistum. Þessir flokkar, til dæmis Þjóðfylkingin í Frakklandi, hafa einmitt barist hvað harðast gegn bólusetningarskyldu og ýmsum höftum á þá sem afþakka bólusetningu.

Þessir flokkar hafa einna helst höfðað til karlmanna í eldri aldurshópum, en til að gera málið flóknara er það einmitt hópurinn sem líklegastur er til þess að láta bólusetja sig. Yngra fólk og konur eru almennt séð líklegri til að afþakka bólusetningu og það kemur einmitt fram í könnun Kanter. Þó nokkuð mikill kynjamunur birtist í öllum sjö löndunum. Að meðaltali sögðust 74 prósent karla örugglega eða líklega ætla að fá bólusetningu en 67 prósent kvenna.