Embætti landlæknis á Englandi fylgist grannt með útbreiðslu á afbrigði kórónaveirunnar, þekkt sem B.1.617.2, sem dreifir sér nú á Indlandi.

Samkvæmt BBC telja vísindamenn að afbrigðið sé að minnsta kosti jafn bráðsmitandi og afbrigðið sem var greint í Kent á Englandi í fyrra. Samkvæmt heimildum BBC bendir hins vegar ekkert til þess að bóluefni virki ekki gegn þessu afbrigði. Talið er að um 500 tilfelli af afbrigðinu hafa verið greind í Englandi, flest í London og norðvesturhluta Englands og eykst smit hratt.

Kalla eftir algjöru útgöngubanni

Síðastliðinn sólarhring létust rúmlega fjögur þúsund manns úr COVID-19 á Indlandi og fjölmargir kalla nú eftir algjöru útgöngubanni að því er fram kemur á vef Reuters. Rúm 400 þúsund ný smit greindust síðastliðinn sólarhring. Vert er að nefna að tala smitaðra og dauðsfalla gæti verið talsvert hærri þar sem vera kunni að ind­versk stjórn­völd greini ekki frá öllum smitum og dauðs­föllum vegna veirunnar í landinu.

Neyðarástand hefur myndast á sjúkrahúsum vegna plássleysis og skort á súrefnistönkum. Ind­versk stjórn­völd hafa þegið boð ís­lenskra stjórn­valda um að senda sau­tján öndunar­vélar til berjast gegn al­var­legri stöðu CO­VID-19 far­aldursins þar í landi.

Um er að ræða gjöf frá Land­spítalanum og verða öndunar­vélarnar fluttar á næstu dögum á vegum al­manna­varna Evrópu­sam­bandsins með milli­göngu heil­brigðis­ráðu­neytisins og utan­ríkis­ráðu­neytisins.